Bandaríska karlalandsliðið í körfuknattleik lék við hvern sinn fingur í dag þegar það vann auðveldan sigur á Púertó Ríkó í lokaumferð riðlakeppni Ólympíuleikanna í París í dag, 104:83.
Úrslitin voru ráðin löngu fyrir leikslok, staðan var 64:45 í hálfleik, og bandarísku stjörnurnar nýttu tækifærið á lokakaflanum til að sýna alls konar tilþrif, sum misjafnlega vel heppnuð.
Bandaríkin unnu riðilinn með 6 stig, Serbía og Suður-Súdan eru með 2 stig og mætast í úrslitaleik um áframhaldið í kvöld en Púertó Ríkó er á heimleið án stiga.
Anthony Edwards skoraði 26 stig fyrir bandaríska liðið, Jayson Tatum 12, Kevin Durant 11, Joel Embiid 11, LeBron James 10 og Anthony Davis 10 en aðrir minna.