Frakkland sigraði Spán örugglega, 32:24, í lokaumferð riðlakeppni kvenna í handknattleik á Ólympíuleikunum í París í morgun og þar með unnu Frakkar riðilinn með fullu húsi stiga.
Frakkland með 10 stig, Holland með 8 og Ungverjaland með 5 stig eru komin í átta liða úrslit en Angóla með 3 stig og Brasilía með 2 leika hreinan úrslitaleik í dag um síðasta sætið þar. Spánverjar töpuðu öllum fimm leikjum sínum. Holland vann Ungverjaland í morgun, 30:26.
Alicia Toublanc skoraði sex mörk fyrir Frakka og Pauletta Foppa fimm en Alexandrina Cabral var markahæst Spánverja með fimm mörk.
Í átta liða úrslitum mæta Frakkar liðinu sem endar í fjórða sæti A-riðils en um það sæti bítast Þýskaland, Suður-Kórea og Slóvenía í lokaumferðinni í dag. Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru öll komin áfram úr A-riðlinum og eru öll með sex stig fyrir síðasta leik en Þórir Hergeirsson og hans konur í norska liðinu mæta Þýskalandi klukkan 17.