Zheng Quinwen varð í dag fyrsti Kínverjinn til að hreppa gullverðlaun í einliðaleik í tennis á Ólympíuleikum þegar hún vann Donnu Vekic frá Króatíu í úrslitaleiknum í kvennaflokki á Roland Garros í París.
Settin enduðu 6:2 og 6:3 og hin 21 árs gamla Zheng fékk mikinn stuðning frá fjölmörgum löndum sínum á áhorfendapöllunum.
Ljóst var fyrirfram að úrslitin yrðu söguleg því Króatía hefur heldur aldrei fengið gullverðlaun í einliðaleik á Ólympíuleikum.
Zheng sló Igu Swiatek frá Póllandi nokkuð óvænt út í undanúrslitunum. Swiatek bætti sér það upp með því að vinna Önnu Karólinu Schmiedlovu frá Slóvakíu í leiknum um bronsið, 6:2 og 6:1.