Frakkland tryggði sér í dag sæti í átta liða úrslitum í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í París með sigri á Ungverjalandi, 24:20.
Var leikurinn hreinn úrslitaleikur um sæti í átta liða úrslitunum og ljóst að tapliðið færi heim.
Frakkarnir í stúkunni óttuðust væntanlega það versta þegar Bence Imre kom Ungverjalandi í 18:16 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.
Sem betur fer fyrir þá voru Frakkar mun sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum fjögurra marka sigur.
Elohim Prandi var markahæstur hjá Frakklandi með sjö mörk. Bence Imre gerði sex fyrir Ungverjaland.
Frakkland fer með Noregi, Egyptalandi og Danmörku í átta liða úrslit í B-riðli. Ungverjaland og Argentína sitja eftir með sárt ennið.