Úkraínski hástökkvarinn Yaroslava Mahuchikh náði í sín fyrstu gullverðlaun á Ólympíuleikunum er hún bar sigur úr býtum í hástökki á Stade de France í París í kvöld.
Mahuchikh sló heimsmetið í greininni er hún stökk 2,10 metra á Demantamóti í síðasta mánuði. Hún var nokkuð frá þeim árangri því sú úkraínska stökk hæst slétta tvo metra.
Nicola Olyslagers frá Ástralíu stökk einnig tvo metra en felldi hæðina tvisvar á meðan Mahuchikh tókst að stökkva hana í fyrstu tilraun. Fékk sú ástralska því silfur.
Iryna Gerashenko frá Úkraínu og Elenor Patterson frá Ástralíu deila bronsverðlaunum en þær stukku báðar 1,95 metra.
Mahuchikh keppti á sínum fyrstu Ólympíuleikum í Tókýó fyrir þremur árum og hlaut þá bronsverðlaun.