Óhugnanlegt atvik átti sér stað í leik Noregs og Þýskalands í handboltakeppni í kvennaflokki á Ólympíuleikunum í París í gær.
Undir lok leiks féll Vilde Ingstad í gólfið og öskraði af sársauka. Í kjölfarið sló þögn í handboltahöllinni í París.
Virtist Ingstad sárþjáð og voru liðsfélagar hennar í áfalli á hliðarlínunni og grétu. Ingstad mun væntanlega ekki spila meira á mótinu, en þó er ekki enn ljóst hve alvarleg meiðslin eru.
„Norsku stelpurnar eru grátandi á bekknum og eru óhuggandi. Nora Mørk hágrætur og Stine Bredal Oftedal heldur utan um hana,“ sagði Patrick Sten Rowlands er hann lýsti leiknum í norska sjónvarpinu.