Ólafur Darri og Hera Hilmar sameina krafta sína

Reykjavík Fusion er fyrsta verkefni íslenska framleiðslufyrirtækisins ACT4 sem hóf …
Reykjavík Fusion er fyrsta verkefni íslenska framleiðslufyrirtækisins ACT4 sem hóf starfsemi sína í ársbyrjun 2023. Félagið einbeitir sér að framleiðslu á vönduðu norrænu sjónvarpsefni og sölu þessi á erlendum mörkuðum. Samsett mynd

Íslensku leik­ar­arn­ir Ólaf­ur Darri Ólafs­son og Hera Hilm­ar fara með aðal­hlut­verk í ís­lensku þáttaröðinni Reykja­vík Fusi­on. Leik­stjór­ar serí­unn­ar eru þeir Samú­el Bjarki Pét­urs­son og Gunn­ar Páll Ólafs­son sem eiga lang­an fer­il að baki sem aug­lýs­inga­leik­stjór­ar. Tök­ur hefjast und­ir lok ág­úst­mánaðar. 

„Við erum spennt­ir að fá tæki­færi til að vinna með jafn hæfi­leika­ríku og reynslu­miklu fag­fólki og kem­ur að Reykja­vík Fusi­on. Eft­ir að starfa í aug­lýs­inga­geir­an­um í næst­um þrjá ára­tugi höf­um við næmt auga og mikla til­finn­ingu fyr­ir því að segja sög­ur hratt á sjón­ræn­an hátt. Við telj­um að það muni nýt­ast í þessu verk­efni. Svo er heiður að fá að vinna með leik­ur­un­um sem koma að verk­efn­inu. Við erum ákveðnir í að nýta þetta tæki­færi í að gera eitt­hvað al­veg ein­stakt,“ segja leik­stjór­arn­ir.

Úrvalslið leik­ara fer með hlut­verk

Ólaf­ur Darri leik­ur mat­reiðslu­meist­ara sem kem­ur úr fang­elsi og ákveður að stofna veit­ingastað í von um að vinna hug og hjarta fyrr­ver­andi unn­ustu. Til að fjár­magna rekst­ur­inn þvætt­ar hann pen­inga á staðnum.

Hera Hilm­ar leik­ur rekstr­ar­stjóra veit­ingastaðar­ins sem nýt­ir sér ein­feldni mat­reiðslu­meist­ar­ans til að vinna að eig­in hags­mun­um. Sam­an sökkva þau dýpra og dýpra í vef glæpa í und­ir­heim­um Reykja­vík­ur þar sem hvert rangt spor get­ur reynst dýr­keypt.

Með önn­ur hlut­verk fara Lára Jó­hanna Jóns­dótt­ir, Guðjón Davíð Karls­son, Atli Óskar Fjalars­son, Þröst­ur Leó Gunn­ars­son og Unn­ur Birna Backm­an. 

„Þáttaröðin hef­ur þegar selst vel er­lend­is“

Reykja­vík Fusi­on er fram­leidd fyr­ir Sjón­varp Sím­ans. Þáttaröðin hef­ur þegar selst vel er­lend­is seg­ir í frétta­til­kynn­ingu frá ís­lenska fram­leiðslu­fyr­ir­tæk­inu ACT4.

Fransk-þýska menn­ing­ar­stöðin ARTE kem­ur að fram­leiðslu þátt­anna og mun sýna þá á frönsk­um og þýsk­um málsvæðum. Sjón­varps­stöðin YLE í Finn­landi, AMC Iber­ia á Spáni/​Portúgal og ERR, rík­is­miðill­inn í Eistlandi, hafa þegar keypt þáttaröðina sem hef­ur verið lýst sem „Break­ing Bad meets The Bear“.

mbl.is