Merki Alþingis fær andlitsupplyftingu

Nýja einkennismerki Alþingis fyrir ofan og síðan það gamla fyrir …
Nýja einkennismerki Alþingis fyrir ofan og síðan það gamla fyrir neðan. Gamla merkið þótti ekki henta samtímanum þar sem það var of fíngert. Samsett mynd

Merki Alþing­is hef­ur fengið upp­færslu en breyt­ing­in er hluti af stærri and­lits­upp­lyft­ingu fyr­ir mynd­rænt efni Alþing­is sem kynnt var í síðustu viku.

Mynd­rænt ein­kenni Alþing­is sem hannað er af Strik Studio var kynnt á opn­un­ar­hátíð Smiðju 14. sept­em­ber. Nýja merkið má nú þegar sjá á vef Alþing­is og verður nýtt heild­ar­út­lit á öllu efni Alþing­is inn­leitt í áföng­um á næstu mánuðum, að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu á vef þings­ins.

Verk­efnið fólst m.a. í að upp­færa og skapa heild­stætt ein­kenni sem sæm­ir Alþingi og þjón­ar starf­sem­inni til lengri tíma. Nýtt merki átti að vera ein­falt, stíl­hreint og taka mið af fjöl­breyttri notk­un og birt­ing­ar­mynd­um í ólík­um miðlum sam­tím­ans. 

Lagt var upp með að nota áfram Alþing­is­húsið sem ein­kenn­is­merki en end­urteikna það í ein­fald­ari mynd „svo það henti bet­ur fjöl­breyttri notk­un sam­tím­ans,“ seg­ir á vef þings­ins.

Lit­ir byggja á þjóðfán­an­um

Ein­kenn­islit­irn­ir byggja á lit­um ís­lenska fán­ans en merkið er ým­ist birt blátt á hvít­um grunni eða hvítt á blá­um grunni. Í til­kynn­ing­unni seg­ir einnig að rauður grunn­ur verði notaður í ýmsu kynn­ing­ar­efni. Litap­all­ett­an sæki inn­blást­ur í inn­an­hússliti Alþing­is í bland við gull og silf­ur.

Letrið sem valið var í merkið og verður notað í ýmsu kynn­ing­ar­efni heit­ir Abacaxi og er hannað af Gunn­ari Vil­hjálms­syni hjá Uni­versal Thirst ásamt Gabrí­el Mark­an. Abacaxi sam­ein­ar hefðbundna og nú­tíma­lega þætti let­ur­gerðar. Let­ur­fjöl­skyld­an er stór og læsi­leg og virk­ar bæði vel á prenti og á skjá.

Gamla merkið hafi ekki hentað kröf­um sam­tím­ans

Nýja merkið leys­ir af hólmi merki eft­ir graf­íska hönnuðinn Þröst Magnús­son, sem var feng­inn til að teikna mynd af Alþing­is­hús­inu fyr­ir sýn­ingu sem sett var upp í til­efni af 50 ára af­mæli lýðveld­is­ins sum­arið 1994.

Í fram­hald­inu leitaði for­ysta þings­ins til Þrast­ar um að fá að nota teikn­ing­una sem merki Alþing­is. Fram að þeim tíma hafði merki Alþing­is verið rík­is­fán­inn, tjúguf­áni, sem þótti ekki hafa næga skír­skot­un í þjóðþingið um­fram aðrar stofn­an­ir rík­is­valds­ins.

„Merki Þrast­ar var á marg­an hátt vel heppnað, hafði sterka skír­skot­un í stofn­un­ina sem það tákn­ar, var vel kynnt og hef­ur skapað sér sess. En vegna þess hve fín­gert merkið er hent­ar það ekki að öllu leyti kröf­um sam­tím­ans um smá­gerðar merk­ing­ar á ra­f­rænu eða öðru formi,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þá hafi verið leitað til Þrast­ar um hvort hann væri til­bú­inn að taka að sér að breyta merk­inu til ein­föld­un­ar. En hann hafi lokið störf­um og studdi það að boðað yrði til sam­keppni meðal hönnuða um nýtt merki Alþing­is.

Alþingi gerði því samn­ing við Miðstöð hönn­un­ar og arki­tekt­úrs um ráðgjöf við verk­efnið og að til­lögu henn­ar var ákveðið að ráðast í lokað val­ferli. Skipuð var val­nefnd til að velja hönn­un­art­eymi til verks­ins.

Ákveðið var að ganga til sam­starfs við hönn­un­ar­stof­una Strik Studio um end­ur­hönn­un mynd­ræns ein­kenn­is Alþing­is og hönn­un­arstaðal.

„Teym­inu hjá Strik Studio, þeim Auði Al­berts­dótt­ur, Jakobi Her­manns, Snorra Eld­járn og Vikt­ori Weiss­happ­el, er þakkað fyr­ir vandaða vinnu og ein­stak­lega gott sam­starf.“ 

mbl.is