„Ég er ennþá að bíða eftir að fá áhuga á golfi“

Ragnhildur er flink í höndunum.
Ragnhildur er flink í höndunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ragnhildur Eiríksdóttir er kona margra hatta. Hún er 55 ára klæðskeri, jógakennari og flugfreyja og hefur alltaf mörg járn í eldinum, enda listfengin á mörgum sviðum. 

Ragnhildur ver dágóðum tíma í litlum skúr við heimili fjölskyldunnar og leysir þann sköpunarkraft, sem býr innra með henni, úr læðingi.

„Vinur minn sagði eitt sinn að ég væri krónískur dundari. Líklega hefur hann rétt fyrir sér,“ segir hún og hlær.

Hvað hefur þig alltaf langað til að gera?

„Ég væri til í að ná mér í meiri menntun í listgreinum. Ég var svo gríðarlega feimin og óframfærin á yngri árum, sífellt hrædd um að kunna ekki og geta ekki, sem er einkennandi fyrir lítið sjálfstraust. Það var svo margt sem ég þorði ekki að gera; til dæmis að fara í myndlist, verða læknir eða flugmaður. Ég gæti hugsað mér að fara í keramik, læra húsasmíði og ýmislegt fleira.“

Ráfar ein um götur New York 

Hvenær nýtur þú þín best?

„Mér þykir mjög gaman að vesenast. Ég nýt mín vel við að skapa eitthvað, vinna í höndunum og breyta einhverju heima hjá mér, flíkum, breyta uppskriftum eða búa þær til frá grunni. Ég elska einnig að villast í stórborgum þar sem ævintýri geta leynst á hverju horni, til dæmis að kynnast manneskju á rauðu gangbrautarljósi.“

Finnst þér skipta máli að áhugi og starf fari saman?

„Vissulega einfaldar það lífið ef það fer saman. Í stoppum erlendis get ég farið á söfn, í göngutúra og sinnt ýmsum áhugamálum. Þar skoða ég stundum dýra hluti sem ég myndi aldrei kaupa en þeir veita mér innblástur. Ég hef til dæmis fengið hugmynd að kjól eftir að hafa skoðað hálsmen í Tiffany's. Í útlöndum upplifi ég oft sköpunarkraft sem mig langar að virkja enn frekar og viðhalda.

Fyrir mér er það upplifun að ráfa ein um götur New York og njóta. Það er notalegt frelsi og er fjarri skyldum gagnvart fjölskyldu og vinum. Það er svo dýrmætt að geta fengið þennan frið og notið hans, fjarri skutli eða heimalærdómi, eins og maður stóð í þegar krakkarnir voru yngri. Mér finnst gríðarlega gaman að ferðast og fara á nýja staði og annað slagið hefur vinnan mín boðið upp á slíkt. Ég hef farið á fjölmarga staði sem ég hefði líklega ekki heimsótt ef ekki væri starfsins vegna. Þannig að áhugamál mín og starf eiga vel saman.“

Þessi ljósmynd var tekin 2018 af Ragnhildi og eiginmanni hennar, …
Þessi ljósmynd var tekin 2018 af Ragnhildi og eiginmanni hennar, Þorgrími Þráinssyni og börnunum þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig komstu á þann stað sem þú ert á í dag?

„Ég er mjög sátt í eigin skinni og hef almenn ekki áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Það er ekki algilt alla daga en mér finnst til að mynda ekkert tiltökumál að vera niðri í bæ á Menningarnótt og dansa og taka pláss.

Stærsti skóli lífsins er að takast á við það að vera manneskja, foreldri, maki og dóttir og það hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Jóganámið hefur gefið mér tæki og tól til að takast á við ólíkar áskoranir.“

Ragnhildur er listfeng á mörgum sviðum.
Ragnhildur er listfeng á mörgum sviðum. Ljósmynd/Aðsend

55 ára og elskar það 

Hvað gefur vinnan þér?

„Að vinna mikið með ungu fólki er einstaklega gefandi og gaman að eiga vini á breiðu aldursbili. Mér líður alltaf eins og ég sé jafngömul og þau. Það að vera 55 ára finnst mér ekki hár aldur. Ég hefði ekki getað ímyndað mér að mér myndi líða svona ungri þegar ég næði þessum aldri. Eflaust er það unga fólkinu að þakka.“

Hver eru áhugamál þín og hvernig sinnir þú þeim?

„Áhugamálin eru síbreytileg. Núna þykir mér gaman að mæta í ræktina en þannig var það ekki áður. Mér finnst gaman að fara út að hlaupa þótt ég hafi ekki byrjað á því markvisst fyrr en fyrir fjórum mánuðum. Mér þykir líka frábært að sitja í sófanum dögum saman og prjóna. Ég get leyft mér svo margt. Í stoppum erlendis geng ég stundum 20 kílómetra en er samt ekki að fara neitt. Vissulegra er heppilegra að hafa gott veður. Ég er ennþá að bíða eftir að fá áhuga á golfi. Mér finnst yndislegt að hafa fengið tækifæri til að læra svona mikið í jóga. Það er helsta ástæða þess að mér líður vel í eigin skinni í dag.“

Ragnhildur hefur búið til marga fallega hluti.
Ragnhildur hefur búið til marga fallega hluti. Samsett mynd

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðum þínum?

„Ég á eftir að gera heilan helling, eins og ég nefndi; læra keramik, húsasmíði, verða frábær í golfi og hver veit, kannski verð ég ballerína. Mér líður í alvörunni eins og ég eigi eftir að gera allt þetta. Það er engin eftirsjá, aðeins spenningur og tilhlökkun fyrir framtíðinni. Ég gæti orðið leikkona eða gullsmiður áður en ég veit af.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Þá daga sem ég er ekki að vinna fyrir hádegi hef ég lokið æfingu fyrir klukkan ellefu. Ef ég fer í morgunflug væri frábært ef ég hefði þá rútínu að fara út að ganga þegar ég kæmi heim að loknum vinnudegi.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Krónískur dundari skipuleggur ekki daginn.“

Ragnhildur elskar að prjóna.
Ragnhildur elskar að prjóna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is