„Ég er algjör forréttindagrís þegar kemur að ferðalögum“

Fjölskyldan undir sér afar vel á ferðalagi sínu í Japan.
Fjölskyldan undir sér afar vel á ferðalagi sínu í Japan. Ljósmynd úr einksafni

Fjöllistakonan Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir opnaði sýninguna Random í Havarí fimmtudaginn 3. október og stendur sýningin fram yfir jól. Þar sýnir Lóa blöndu af málverkum, skúlptúrum, myndasögum og prentverkum.

„Sum verkin hafa aldrei verið til sýnis áður á meðan önnur hafa verið á sýningum í Listasafni Árnesinga og í Ásmundarsal,“ segir Lóa.

„Ég vinn mikið með íslenskan samtíma, grín og örvæntingu. Þessa dagana er ég á fullu að fylla á veggina og undirbúa meira stuð.“

Sýningin Random er í fullum gangi í Havarí og verður …
Sýningin Random er í fullum gangi í Havarí og verður fram yfir jól. Ljósmynd úr einkasafni

Á borði Lóu er nóg af verkefnum en næst á dagskrá er útgáfa bókarinnar Mömmu Sandköku 13. október í bókabúð Sölku á Hverfisgötu. Þar verður boðið upp á krakkakarókí og sandköku.

„Mamma Sandkaka gerist í vetrarfríi á Tenerife og fjallar um börn sem langar að fara í vatnsrennibrautagarð en foreldrar þeirra eru annað hvort að drepast úr þreytu vegna þess að þau þurftu að vinna svo mikið til að komast í ferðalagið eða upptekin við að klára skattaskýrslu.“

Svo heldur hún til Malmö þar sem hún mun kenna myndasögugerð.

Forréttindagrís á ferðalagi

Að því sögðu færist spjallið yfir í ferðalög. „Ég er algjör forréttindagrís þegar kemur að ferðalögum og hef ferðast til ýmissa landa, oftast vegna vinnu. Í maí var ég til dæmis með fjölskyldu minni í vinnustofudvöl í Fujiyoshida í Japan. Við héldum sýningu og borðtennismót við rætur Fuji-fjalls.“

Leikfangasafn rétt hjá Fuji í Japan.
Leikfangasafn rétt hjá Fuji í Japan. Ljósmynd úr einkasafni

Þann 17. júní hélt Lóa ásamt hljómsveit sinni FM Belfast þjóðhátíðartónleika í Tívólíinu í Kaupmannahöfn.

„Og svo áttu foreldrar mínir 50 ára brúðkaupsafmæli sem við fögnuðum á Ítalíu,“ bætir hún við á meðan hún telur upp ferðalögin á árinu.

Lóa hefur ferðast mikið og með FM Belfast hefur hún farið í tónleikaferðalög m.a. til Englands, Írlands, Baskaslands, Ástralíu og Rússlands, svo fátt eitt sé nefnt.

„Svo hef ég líka komið til Vatíkansins sem er ekki beinlínis land en þau vilja halda því fram svo ég ætla ekkert að rengja það.“

Matarboð á húsþaki undir fullu tungli í Fujiyoshida.
Matarboð á húsþaki undir fullu tungli í Fujiyoshida. Ljósmynd úr einkasafni

Fullir Ameríkanar í ljótum stuttermabol

Lóa segir eftirminnilegasta ferðalagið vera þegar hún dvaldi ásamt vinum í húsi inni í skógi á Jómfrúareyjum.

„Það er fallegasti staður sem ég hef komið til og eins nálægt paradís á jörðu og ég hef komist. Náttúruhluti eyjarinnar, þ.e.a.s., túristahlutinn var auðvitað glataður með einhverjum fullum Ameríkönum að rápa um í ljótum stuttermabolum.“

Uppáhaldsborg Lóu í Evrópu er Istanbúl. Hún segir hana ævintýralega fallega og lifandi og Tyrki vera bestu gestgjafana og „barnbesta“ fólkið sem hún hefur hitt, á eftir fólki frá Palestínu sem hún hefur kynnst á Íslandi.

Veitingastaður í Japan sem býður upp á svo miklu meira …
Veitingastaður í Japan sem býður upp á svo miklu meira en bara góðan mat. Ljósmynd úr einkasafni

Besta matarupplifunin

„Uppáhaldsborgin utan Evrópu er Osaka í Japan. Þvílík veisla, fegurð og fjör og einstakur staður fyrir fólk með dótasöfnunaráráttu og áhugafólk um mat.“ En í Japan fékk Lóa besta mat sem hún hefur smakkað á ferðalagi, en það var pönnukaka í Tókýó.

„Hún var svo fluffy að ég get varla munað hvernig var að borða hana því hún var engu lík. Svo var staður í New York sem hét Caracas og þar voru stórkostlegar arepas.“

Lóa og Árni á góðri stund í Japan.
Lóa og Árni á góðri stund í Japan. Ljósmynd úr einkasafni

Fullur bílstjóri

Aðspurð segist Lóa ekki hafa lent í mörgum hættum á ferðalagi fyrir utan þegar hún datt ósynd í sjóinn í Portúgal og hélt hún myndi drukkna.

Hins vegar standi tvö skringileg atvik upp úr sem hún upplifði erlendis.

„Einu sinni keyrði ég eldgamlan Yugo í Skopje af því að bílstjórinn var fullur og hafði bannað okkur að taka leigubíl af því að leigubílstjórarnir voru að selja eiturlyf.“

Þá segist hún hafa elt uppi vasaþjóf sem rændi veskinu af föður hennar í Lyon í Frakklandi. „En ég held að ég hafi ekki verið í hættu af því að vasaþjófurinn var lágvaxnari en ég og var held ég hræddari við mig en ég við hana.“ Auðvitað náði Lóa veskinu.

Lóa segist vera hrifnust af lestarferðum og óskar þess að hérlendis væri hægt að ferðast um með lest.

„Það væri svo gaman að geta skroppið til Flateyrar, Akureyrar og Seyðisfjarðar í lest. Annars finnst mér alltaf gaman að ferðast og sérstaklega með Árna mínum því við erum svo vön að ferðast saman og erum fáránlega góð að pakka í töskur og redda okkur í allskonar aðstæðum og við erum svo heppin að hafa fengið að lifa svona skemmtilegu lífi saman.“

mbl.is