Listaverk unnin í maníu og depurð

Klara Rún Kjartansdóttir við eitt verka sinna.
Klara Rún Kjartansdóttir við eitt verka sinna. Ljósmynd/Aðsend

Klara Rún Kjartansdóttir opnar sína fyrstu einaksýningu á sjálfsmyndum sem unnar eru þegar hún glímdi við geðhvörf. Um er að ræða fígúratívar teikningar, flestar sjálfsmyndir, sem úr fjarlægð virðast litríkar og jafnvel glettnar en þegar rýnt er í myndmálið má greina þungan og myrkan undirtón. 

Klara er tölvunarfræðingur og forritari en á að baki langan feril í listinni og hefur verið viðloðandi listinni frá barnsaldri. Hún var í Myndlistaskóla Kópavogs frá átta ára aldri og fram til unglingsára og hefur síðan þá sótt fjölmörg námskeið í listum samhliða starfi. Hluti sölunnar mun renna til Píeta samtakanna sem veita stuðning og meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu.

Áskorun að vera með geðhvörf

„Ég hef alltaf teiknað frá ég man eftir mér og teikna sérstaklega mikið þegar ég er annað hvort í maníu eða depurð en ég sveiflast ansi mikið upp og niður út af sjúkdóminum. Það er mikil áskorun að vera með geðhvörf og krefst mikillar vinnu og skipulagningar,“ segir Klara Rún en hún teiknar undir listamannsnafninu KAR.
Klara Rún og yngri sonur hennar.
Klara Rún og yngri sonur hennar. Ljósmynd/Aðsend

Lífsreynsla sem hefur mótað hana sem listamann

Klara segir það mikla lífsreynslu að greinast með geðhvörf sem hafi mótað sig mjög.
„Ég menntaði mig, var í fínni vinnu, eignaðist börn og góða fjölskyldu. Árið 2017 veiktist ég og missti af nokkrum mánuðum hjá strákunum mínum. Það var talsvert áfall að verða allt í einu veik. Síðastliðinn desember missti ég manninn minn en hann hafði alltaf hvatt mig til að halda sýningu. Eins hef ég fengið ótrúlega hjálp hjá Píeta samtökunum og vil ég þess vegna láta renna 5% af hagnaði af sýningunni til Píeta samtakana,“ segir Klara.
Klara teiknar einna helst sjálfsmyndir sem endurspegla hennar innra ástand.
Klara teiknar einna helst sjálfsmyndir sem endurspegla hennar innra ástand. Teikning/Klara Rún Kjartansdóttir

Endurspeglar innra ástand

Innblástur sækir Klara úr daglegri líðan sem getur verið misjöfn. Hún teiknar aðallega sjálfsmyndir sem endurspegla hennar innra ástand.
„Ég teikna mikið sjálfsmyndir sem er kannski er erfitt að sjá við fyrstu sýn. En myndirnar eru mjög fígúratívar t.d. hef ég teiknað mig sem hrygg með vængi að gefa fiski brjóst.“
Aðspurð um hvort hún eigi það til að ofkeyra sig svarar Klara játandi.
„Já, þá loka ég mig bara af í þunglyndi og teikna lítið sem ekkert. Til að bregðast við því reyni ég að fara eftir daglega skipulaginu mínu eins og að forrita á hverjum degi og fara í kalda pottinn og saununa í sundi. Ég skipulegg hvern dag í dagbók, skrifa upp allt sem ég ætla að gera, öll lyf sem ég tek og alla líðan og svefn. Eins finnst mér mikilvægt að halda í rútínu og er búin að ákveða hvað er í matinn viku fram í tímann.“ 
Það er margt framundan hjá Klöru. „Ég er að halda þessa sýningu, teikna fleiri myndir og ætla svo að halda áfram að forrita heilsu-app sem ég er með í vinnslu.“

5 hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt?

  • Að ég þyrfti að hafa fyrir því að halda mér í kjörþyngd.
  • Að ég væri falleg.
  • Að ég yrði veik seinna meir og þyrfti betur að halda utan um jafnvægi og vinna ekki svona mikið.
  • Lottótölur sem unnu.
  • Að ég þyrfti að hreyfa mig reglulega út lífið.
Sýning Klöru opnar laugardaginn 12. október kl. 14 að Rauðarárstíg 1 og mun standa yfir í tvær helgar auk þess sem hún er opin frá 17-19 á virkum dögum.
Teikningar Klöru eru fígúratívar og lýsa draumkenndum veruleika.
Teikningar Klöru eru fígúratívar og lýsa draumkenndum veruleika. Teikning/Klara Rún Kjartansdóttir
Myndmálið getur verið myrkt.
Myndmálið getur verið myrkt. Teikning/Klara Rún Kjartansdóttir
mbl.is