„Stórt áhyggjuefni hvernig staðan er“

Loðna er ekki stór fiskur en skapar mikil verðmæti.
Loðna er ekki stór fiskur en skapar mikil verðmæti. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Gunnþór Ingva­son, fram­kvæmda­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar í Nes­kaupsstað, seg­ir óviss­una varðandi loðnu­stofn­inn vera erfiða en er hóf­lega bjart­sýnn varðandi fisk­veiðiárið 2025-2026. 

Haf­rann­sókna­stofn­un til­kynnti í að dag að stofn­un­in muni ekki leggja til að loðnu­veiðar verði leyfðar fisk­veiðiárið 2024 til 2025. Ráðgjöf­in bygg­ir á niður­stöðum berg­máls­mæl­inga á loðnu­stofn­in­um á tíma­bil­inu 21. ág­úst til 1. októ­ber en verður end­ur­met­in þegar niður­stöður berg­máls­mæl­inga á stærð veiðistofns­ins liggja fyr­ir í byrj­un næsta árs.

Enn eitt óvissu­árið

„Þetta eru auðvitað vond tíðindi og enn eitt óvissu­árið varðandi loðnu­stofn­inn. Mæl­ing­in er mjög ná­lægt því sem þarf til að leyfa veiðar og lítið vant­ar upp á að ná upp­hafskvóta,“ seg­ir Gunnþór þegar mbl.is bar niður­stöðuna und­ir hann. 

Gunnþór Ingvason.
Gunnþór Ingva­son. Ljós­mynd//​Birg­ir Ísleif­ur Gunn­ars­son

Gunnþór sér ljósa punkta í stöðunni þegar hann rýn­ir í mæl­ing­arn­ar.  

„Sam­kvæmt mæl­ing­unni gæti komið upp­hafskvóti fyr­ir þar næstu vertíð. Ég myndi því segja að það séu ljós­ir punkt­ar í þessu þótt slæmt sé að fá ekki kvóta. Það hefði verið gott ef hægt hefði verið að leyfa ein­hverj­ar veiðar og sam­kvæmt mæl­ing­unni erum við grát­lega ná­lægt því. Loðnu­út­gerðir hafa hins veg­ar verið í limbói í ára­tugi varðandi þenn­an tíma og þess­ar töl­ur gefa til­efni til að veiðar verði leyfðar 2025-2026. Þetta hefði getað verið verra.“

Staða loðnu­stofns­ins er um­hugs­un­ar­efni

Varðandi loðnu­stofn­inn og umræðuna um hann í heild sinni seg­ist Gunnþór vilja sjá meira púður sett í að kom­ast að því hvers vegna staðan sé ekki betri en raun ber vitni. 

„Auðvitað er stórt áhyggju­efni hvernig staðan er, og hef­ur verið, varðandi loðnu­stofn­inn. Ég held að menn þurfi að kom­ast að því hvað skaðar stofn­inn. Hvaða áhrif hef­ur til dæm­is svaka­leg­ur vöxt­ur hvala­stofna á loðnuna? Þetta er um­hugs­un­ar­efni og væri mik­il­vægt að geta áttað sig full­kom­lega á sam­heng­inu í þessu,“ seg­ir Gunnþór.

mbl.is