Mikil aðsókn á lista Miðflokksins

Margir eru áhugsamir um að taka sæti á framboðslistum Miðflokksins fyrir næstu alþingiskosningar. Þetta segir Bergþór Ólason, þingflokksformaður. Hann segir þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, einnig ræða við fólk að fyrra bragði.

Þetta kemur fram í samtali við Bergþór í nýjasta þætti Spursmála en Miðflokkurinn heldur flokksþing sitt núna um helgina.

Fengi 13 þingsæti

Samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup mælist Miðflokkurinn með 18,7% fylgi, næst mest allra flokka. Aðeins Samfylkingin mælist með meiri stuðning eða 26,1%. Yrðu niðurstöður kosninga á svipaða lund og í mælingu Gallup fengi Miðflokkurinn 13 þingmenn kjörna en í síðustu kosningum hlaut flokkurinn þrjú þingsæti. Í þingflokki Miðflokksins eru hins vegar aðeins tveir þingmenn þar sem Birgir Þórarinsson, sem kjörinn var fyrir flokkinn í Suðurkjördæmi gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, aðeins tveimur vikum eftir kosningarnar í október 2021.

Margir áhugasamir

„Það er nú sem betur fer mikið af áhugasömu fólki sem er búið að láta vita af sér. En það er líka fólk sem við teljum mikinn akk í að fá um borð til okkar sem við höfum verið að ræða við og viljað fá til liðs við okkur og...“

Ef Bjarni boðar til kosninga á morgun, hvernig raðið þið þá á listann?

„Ef það yrði boðað til kosninga á morgun finnst mér sennilegt að það yrði farið í uppstillingarleiðina, það er bara praktískt bara vegna tímapressunnar sem þar er. En það kann þetta náttúrulega enginn flokkur betur en við því fyrir sjö árum síðan höfðum við svo stuttan tíma til að gera þetta, flokkurinn var stofnaður ef ég man rétt, sex vikum fyrir kosningar. Þannig að menn höfðu þrjár vikur til að stilla á lista og menn þurftu að skila listum þremur vikum fyrir kosningar þannig að við höfum gert þetta áður og verðum ekki í vandræðum með að gera það aftur,“ segir Bergþór.

Bergþór Ólason er þingflokksformaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason er þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Brynjólfur Löve

Áhugi meðal ungs fólks mikill

Og Bergþór segir ánægjulegt að sjá hversu mikinn áhuga ungt fólk sýni á starfi flokksins.

„En það er líka, því Íris sagði réttilega hérna áðan að ungt fólk hugsaði minna í flokkum en áður. Það er búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með því hvað það er mikill straumur af ungu fólki til okkar. Ég hélt raunverulega að ungt fólk væri hætt að skrá sig í stjórnmálaflokka með beinum hætti. það er ekki staðan í dag. Ungt fólk er leitandi og það er út af þessum raunhæfu raunheimavandamálum sem blasa við núna. Fólk sér ekki fram á að komast inn á húsnæðismarkaðinn, vextir og verðbólga uppi í rjáfrinu. Menntakerfið gagnrýnt með sanngjörnum hætti eins og það er. Og svona koll af kolli. Þannig að ungt fólk er miklu meira að hugsa um pólitík núna en verið hefur.“

Viðtalið við Bergþór má sjá í spilaranum hér að neðan. Hann er gestur þáttarins ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra og Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum.

 

mbl.is