This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, heldur áfram að styrkja stöðu sína nú þegar aðeins 18 dagar eru til kosninga í Bandaríkjunum. Í kosningaauglýsingu Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, segir að Trump sé áhætta sem Bandaríkjamenn hafi ekki efni á.
Þetta kemur fram í yfirferð Hermanns Nökkva Gunnarssonar, blaðamanns á mbl.is og Morgunblaðinu, í Spursmálum í dag.
Samkvæmt RealClearPolitics þá er Trump núna að leiða í sex af sjö sveifluríkjum og hefur hann styrkt stöðu sína enn frekar síðastliðna viku. Fylgismunurinn er samt enn innan skekkjumarka í öllum ríkjum.
Miðað við kannanir þá myndi hann nú fá 302 kjörmenn kjörna á sama tíma og Harris myndi fá 236 kjörmenn kjörna.
Þegar hvert einasta sveifluríki er skoðað má þó sjá að fylgismunurinn er lítill. Mesta forskotið er Trump með í Norður-Karólínu þar sem hann er með 1,2 prósentustiga forskot á Harris. Í Pennsylvaníu leiðir Trump með 48,3% fylgi á sama tíma og Harris mælist með 48% fylgi.
Eina ríkið sem Harris leiðir í er Wisconsin þar sem hún er með 0,3 prósentustiga forskot á Donald Trump.
Svokallaðar árásarauglýsingar (e. Attack ads) tíðkast í Bandaríkjunum og geta skipt sköpum í kosningabaráttum. Auglýsingarnar mála upp eins svarta mynd af andstæðingnum og möguleiki er á en báðir frambjóðendur gera þetta.
Þetta einskorðast ekki bara við þessar kosningar en þetta er notað í flestum stórum kosningabaráttum vestanhafs.
Í spilaranum að ofan má sjá tvö dæmi um árásarauglýsingar. Í auglýsingu Harris er máluð upp sú mynd af Trump að hann sé fasisti sem sé áhætta sem Bandaríkjamenn hafi ekki efni á.
Í auglýsingu Trumps er vísað í stöðu landamæranna, efnahagsmála og alþjóðamála. Þar er sagt að Harris myndi ekki gera neitt öðruvísi við stjórn Bandaríkjanna heldur en síðustu ár.
„Ekkert mun breytast með Kamölu. Meiri veikleiki, fleiri stríð, fleiri ölmusur fyrir ólöglega [innflytjendur] og enn hærri skattar,“ segir í auglýsingu Trumps.
Hermann fór einnig yfir veðbanka og ítrekaði að þetta væri ekki vísindaleg nálgun á það hvor sé líklegri til þess að vinna.
Frekar mætti líta á veðbanka sem mælistiku á það hvaða frambjóðandi væri með meðvind.
Samkvæmt veðbönkum eru 41,3% líkur á sigri Kamölu Harris en 57,6% líkur á sigri Donalds Trumps.
Jón Gunnarsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir voru sérstakir gestir í Spursmálum í dag. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.