Spursmál: Ný könnun sem sýnir fylgi flokkanna

Talsverð hreyfing er á fylgi stjórnmálaflokkanna í því ölduróti sem nú er uppi í íslenskum stjórnmálum. Þetta staðfesta nýjar tölur í könnun Prósents sem unnin er fyrir Morgunblaðið og kynntar eru í Spursmálum í dag kl. 14:00.

Þar mun Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, fara yfir tölurnar og hvað lesa megi í þær fylgisbreytingar sem merkjanlegar eru í kjölfar þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar leystist upp fyrir augum þjóðarinnar um liðna helgi.

Einvígi í Kraganum

Í þættinum heyrir til annarra tíðinda. Þar munu þau Jón Gunnarsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir mætast í fyrsta sinn eftir að hún tilkynnti að hún hygðist etja kappi við hann um annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þórdís er varaformaður flokksins og utanríkisráðherra en Jón Gunnarsson hefur gegnt ráðherraembættum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.

Allt bendir til þess að það stefni í hjaðningavíg innan flokksins á sunnudag þegar kjördæmisráð flokksins í Suðvestur kemur saman til þess að kjósa um fjögur efstu sætin fyrir þingkosningarnar.

Hvernig eru spilin að raðast í pólitíkinni?

Þá munu þau Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG og Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir, aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar, einnig mæta til leiks og fara yfir stöðuna i landsmálunum.

Sneisafullur þáttur á dagskrá hjá mbl.is kl. 14:00 í dag. Ekki missa af honum. Spursmál eru heitasti þjóðmálavettvangur landsins um þessar mundir.

mbl.is