BM Vallá og Kapp hlutu umhverfisverðlaun

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, tók við umhverfisverðlaunum atvinnulífsins fyrr …
Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, tók við umhverfisverðlaunum atvinnulífsins fyrr í dag. Ljósmynd/Aðsend

BM Vallá og Kapp voru af­hent Um­hverf­is­verðlaun at­vinnu­lífs­ins í dag. BM Vallá var valið um­hverf­is­fyr­ir­tæki árs­ins 2024 og Kapp fékk verðlaun fyr­ir um­hverf­is­fram­tak árs­ins 2024.

Sig­ríður Mar­grét Odds­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, og verðlauna­haf­ar fyrra árs af­hentu verðlaun­in við hátíðlega at­höfn í dag.

Vist­væna steyp­an Berg­lind

Í til­kynn­ingu frá Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins seg­ir að sjálf­bær nýt­ing auðlinda og um­hverf­is­mál vera rauður þráður í starf­semi BM Vallá. Fyr­ir­tæk­is sem hef­ur sett sér það mark­mið að verða um­hverf­i­s­vænsti steypu­fram­leiðandi lands­ins.

BM Vallá stefn­ir að því að gera starf­semi sína og steypu­fram­leiðslu kol­efn­is­hlut­lausa árið 2030.

Í um­sögn dóm­nefnd­ar um BM Vallá er meðal ann­ars bent á ný­sköp­un inn­an fyr­ir­tæk­is­ins um vist­vænni lausn­ir í mann­virkja­gerð.

Er þar nefnt sem dæmi vist­væna steyp­an Berg­lind sem skil­ur eft­ir sig allt að 45% minna kol­efn­is­spor en hefðbund­in steypa.

Haft er eft­ir Þor­steini Víg­lunds­syni, for­stjóra BM Vallár, í til­kynn­ing­unni:

„Við erum þakk­lát fyr­ir þenn­an heiður sem er til marks um að áhersl­ur okk­ar í um­hverf­is­mál­um séu eft­ir­tekt­ar­verðar og hafi skilað raun­veru­leg­um ár­angri. Þenn­an ár­ang­ur eig­um við öfl­ugu starfs­fólki, viðskipta­vin­um og sam­starfsaðilum að þakka sem deila þeirri sýn að breyta þurfi nálg­un við hönn­un og bygg­ingu mann­virkja. Sam­nefn­ari þeirra áherslna er metnaður, drif­kraft­ur og þor til að leiða fram breyt­ing­ar þar sem um­hverf­i­s­vænni lausn­ir gegna lyk­il­hlut­verki. Að vera val­in um­hverf­is­fyr­ir­tæki árs­ins er mik­il hvatn­ing til að gera enn bet­ur í þróun lausna sem hafa já­kvæðari um­hverf­isáhrif. Við hlökk­um til að halda áfram til að leggja okk­ar af mörk­um til að byggja vist­vænni framtíð.“

Ný krapa­vél

Kapp er tæknifyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í kæliþjón­ustu, véla­smíði, inn­flutn­ingi og þjón­ustu á tækja­búnaði í sjáv­ar­út­veg, fisk­eldi og ann­an iðnað.

OptimICE krapa­vél fyr­ir­tæk­is­ins hef­ur verið í fram­leiðslu í 25 ár og nú er kom­in ný krapa­vél sem nýt­ir kol­díoxíð sem kælimiðil í stað F-gasa til að kæla fisk fljótt niður fyr­ir frost­mark án þess að frjó­sa.

Í til­kynn­ingu er Krapa­vél­in sögð nýj­ung sem stuðli að sam­drætti í los­un gróður­húsaloft­teg­unda með því að skipta út kælimiðlum með mjög mik­inn hlýn­un­ar­mátt.

Von­ir eru bundn­ar við að hægt verði að nýta krapa­vél­ina til kæl­ing­ar í ann­arri mat­vinnslu eins og í kjúk­linga­vinnslu og stærri bakarí­um.

Í dóm­nefnd Um­hverf­is­verðlauna at­vinnu­lífs­ins sitja formaður dóm­nefnd­ar, Reyn­ir Smári Atla­son, Cred­it­In­fo, Elma Sif Ein­ars­dótt­ir, Stiku um­hverf­is­lausn­um og Jóna Bjarna­dótt­ir, Lands­virkj­un.

Kapp er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi …
Kapp er tæknifyr­ir­tæki sem sér­hæf­ir sig í kæliþjón­ustu, véla­smíði, inn­flutn­ingi og þjón­ustu á tækja­búnaði í sjáv­ar­út­veg, fisk­eldi og ann­an iðnað. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is