Musk gert að mæta í dómsal í dag

Elon Musk og Trump á kosningafundi í byrjun mánaðarins.
Elon Musk og Trump á kosningafundi í byrjun mánaðarins. AFP/Jim Watson

Millj­arðamær­ing­ur­inn Elon Musk á að mæta í dómsal í Fíla­delfíu í Banda­ríkj­un­um í dag.

Dóm­ari fyr­ir­skipaði að hann skyldi mæta í rétt­ar­höld í tengsl­um við mál sem var höfðað til að koma í veg fyr­ir að hann gæti gefið eina millj­ón doll­ara til skráðra kjós­enda í kom­andi for­seta­kosn­ing­um í sveiflu­ríkj­um.

Yf­ir­sak­sókn­ari Fíla­delfíu-borg­ar, Larry Kra­sner, höfðaði málið á mánu­dag­inn og sagði Musk hafa búið til „ólög­legt lottós­vindl“. Í kjöl­farið kvað dóm­ari upp þann úr­sk­urð í gær um að Musk skyldi mæta í dómsal­inn.

Musk og Trump á kosningafundi.
Musk og Trump á kosn­inga­fundi. AFP/​Jim Wat­son

Mikla at­hygli vakti þegar Musk til­kynnti fyrr í þess­um mánuði að hann ætlaði að gefa ein­um skráðum kjós­anda í sveiflu­ríki eina millj­ón doll­ara á dag, eða um 143 millj­ón­ir króna, fram til kosn­ing­anna 5. nóv­em­ber. Efa­semd­ir komu strax fram um lög­mæti þess.

Fyrr í þess­um mánuði var greint frá því að Musk hefði gefið póli­tísku hags­muna­fé­lagi sem hann stofnaði til að styðja við banda­ríska for­setafram­bjóðand­ann Don­ald Trump tæp­ar 75 millj­ón­ir banda­ríkja­dala, sem jafn­gild­ir um tíu millj­örðum króna.

Fyrr­ver­andi stuðnings­maður Obama

Musk hélt ræðu á kosn­inga­fundi Trumps í Fíla­delfíu fyrr í mánuðinum. Auðjöf­ur­inn, sem áður var stuðnings­maður Baracks Obama, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta, hef­ur orðið sí­fellt íhalds­sam­ari með ár­un­um.

Hann hef­ur ít­rekað skrifað til stuðnings Trump á sam­fé­lags­miðlin­um X, þar sem hann er með 202 millj­ón­ir fylgj­enda. Einnig hef­ur hann ít­rekað gagn­rýnt þar Kamölu Harris vara­for­seta.

mbl.is