Stuðningsmaður Harris: „Ég er stressaður“

Hjónin sátu á veröndinni í rólegheitum.
Hjónin sátu á veröndinni í rólegheitum. mbl.is/Hermann

Ryan Al­bert, íbúi í Arlingt­on í Virg­in­íu, styður Kamölu Harris, for­setafram­bjóðanda demó­krata, og hann er með skilti í garðinum til að sanna það.

Al­bert sat á ver­önd­inni með eig­in­konu sinni er blaðamaður bar að garði. Í kring­um kosn­ing­arn­ar eru fjöl­marg­ir stuðnings­menn beggja fram­bjóðenda með stuðnings­skilti í görðum sín­um og er Al­bert þar eng­in und­an­tekn­ing. Hann var meira en til í að ræða um stuðning sinn við Harris.

„Þau trúa ótrú­leg­ustu hlut­um“

Af hverju ætl­ar þú að kjósa Harris?

„Vegna þess að ég tel hana vera lang­besta fram­bjóðand­ann, mér finnst hún vera með góð stefnu­mál og hún lít­ur ekki fram hjá staðreynd­um og sann­leik­an­um eins og hinn fram­bjóðand­inn [Don­ald Trump].“

Þau voru búin að skreyta vegna hrekkjavökunnar.
Þau voru búin að skreyta vegna hrekkja­vök­unn­ar. mbl.is/​Her­mann

Spurður af hverju hann telji að fram­bjóðandi eins og Trump fái svo mik­inn hljóm­grunn meðal Banda­ríkja­manna þá seg­ir Al­bert að það sé meðal ann­ars vegna upp­lýs­inga­óreiðu á sam­fé­lags­miðlum.

„Ég held að því miður á þess­um tím­um þá sé auðvelt að ljúga að fólki. Þú sérð hluti eins og sam­fé­lags­miðla, þar sem fólk sér ýms­ar full­yrðing­ar aft­ur og aft­ur og það tel­ur að það sé satt því því það sér þetta ít­rekað. Þau gefa sér ekki tíma til að skoða mál­in til hlít­ar og þau trúa ótrú­leg­ustu hlut­um.“

Yrði slæmt fyr­ir banda­menn

Ertu hrædd­ur um að Trump sigri?

„Já, ég held að það sé sann­gjarnt að orða það þannig. Ég er stressaður. Ég held að það yrði slæmt fyr­ir okk­ar þjóð og banda­menn okk­ar,“ seg­ir Al­bert.

mbl.is