Hefur tröllatrú á Trump

Jeremy ásamt eiginkonu sinni.
Jeremy ásamt eiginkonu sinni. mbl.is/Hermann

Jeremy Critchfield, eig­andi versl­un­ar­inn­ar Huntchef, er bú­sett­ur í litl­um bæ sem heit­ir Chalk­hill í Penn­sylvan­íu.

Hann er á dreif­býlu svæði, ekur um á pall­bíl með vís­un í upp­haf Banda­ríkj­anna 1776, og það kem­ur kannski ekki á óvart að hann mun kjósa Don­ald Trump, for­setafram­bjóðanda re­públi­kana, á þriðju­dag.

Blaðamaður mbl.is er á ferð um ríkið og ræddi við hann.

Finn­ur fyr­ir verðbólg­unni 

Hann seg­ir verðbólgu hafa verið „geðveika“ að und­an­förnu. Hann rek­ur versl­un og seg­ir að öll inn­kaup fyr­ir­tæk­is­ins hafi hækkað og þar af leiðandi hafi hann þurft að hækka verð hjá sér. 

„Ég er að selja ein­hverj­um eitt­hvað fyr­ir 15 doll­ara núna, sem ég seldi fyr­ir fjór­um árum fyr­ir 9 doll­ara, en ég er ekki að auka hagnaðar­hlut­fallið,“ seg­ir hann.

Hann er með stórt stuðningsskilti fyrir utan verslunina sína.
Hann er með stórt stuðnings­skilti fyr­ir utan versl­un­ina sína. mbl.is/​Her­mann

Sósí­al­ismi inn­flutt­ur í landið

Af hverju ætl­ar þú að kjósa Trump?

„Banda­rík­in voru stofnuð á grund­velli ein­stak­lings­frels­is og guðsgef­inna rétt­inda. Frá stofn­un Banda­ríkj­anna þá hafa hlut­irn­ir breyst og þá sér­stak­lega á síðustu 40 árum. Stjórn­mála­stétt­in og auðstétt­in í þess­ari þjóð hafa inn­flutt sósíal­ískt og dystópískt rusl sem er í ber­höggi við allt sem þjóðin var mynduð í kring­um.

Don­ald J. Trump er á þess­ari stundu eini maður­inn – ásamt fólk­inu sem er í kring­um hann – sem get­ur hjálpað okk­ur að snúa við þess­ari þróun, leyft hjól­um hag­kerf­is­ins að fara snúa aft­ur og tryggt frelsi okk­ar aft­ur. Þetta eru meðal þeirra ástæðna sem ég ætla að kjósa hann.“

„Trump vinn­ur þetta“

Bær­inn Chalk­hill er um klukku­tíma suðaust­ur frá borg­inni Pitts­burgh og Jeremy tel­ur að um 85% íbúa á svæðinu muni kjósa Trump.

Held­urðu að hann vinni kosn­ing­arn­ar í Penn­sylvan­íu?

„Trump vinn­ur þetta. Verðbólg­an svíður og all­ir finna fyr­ir henni í heim­il­is­bók­hald­inu,“ seg­ir hann og bæt­ir við að hon­um finn­ist demó­krat­ar hafi gengið of langt í Covid-far­aldr­in­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina