Sóknardagar myndu bæta kerfið að sögn skipstjóra

Skipstjórarnir Jóhann A. Jónsson, Jónas Ragnarsson og Einar Sigurðsson segja …
Skipstjórarnir Jóhann A. Jónsson, Jónas Ragnarsson og Einar Sigurðsson segja það besta í stöðunni nú vera að taka upp sóknardagakerfi í stjórnun strandveiða. Þannig verði hverjum báti úthlutað ákveðinn fjölda veiðidaga sem skipstjóri bátsins nýtir á settu veiðitímabili á þann hátt sem hann metur best. Samsett mynd

Leiðin til að kom­ast út úr nú­ver­andi óvissu um strand­veiðarn­ar og brúa bil ólíkra sjón­ar­miða er að taka upp sókn­ar­daga­kerfi þar sem hverj­um bát verði út­hlutað ákveðinn daga­fjöldi. Það segja þeir Ein­ar Sig­urðsson skip­stjóri á Birni Jóns­syni ÞH-345, Jó­hann A. Jóns­son skip­stjóri á Garðari ÞH-122 og Jón­as Ragn­ars­son skip­stjóri á Ragga ÍS- 419 í yf­ir­lýs­ingu sem borist hef­ur 200 míl­um.

„Með þessu fyr­ir­komu­lagi verður óvissu um strand­veiðar eytt og „sprung­inn pott­ur“ um mitt sum­ar heyr­ir sög­unni til,“ full­yrða þeir og segj­ast vona að þing­menn og stjórn­völd taki til­lög­unni „fagn­andi og breyti fyr­ir­komu­lagi strand­veiða fyr­ir næstu vertíð til hags­bóta fyr­ir smá­báta­sjó­menn og þjóðarbúið allt.“

Slæm reynsla

Vekja þeir at­hygli á að afli strand­veiða síðasta sum­ar hafi verið 12.500 tonn og verðmæti afl­ans um fimm millj­arðar króna. Strand­veiðar sem hóf­ust í mái voru hins veg­ar stöðvaðar um miðjan júlí þegar veiðiheim­ild­ir sem veiðunum var ráðstafað kláruðust.

Skip­stjór­arn­ir þrír segja nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag strand­veiða ekki til þess fallið að há­marka arðsemi auðlind­ar­inn­ar, né held­ur að tryggja jafn­ræði milli ein­stakra strand­veiðibáta og eða byggðarlaga.

„Reynsl­an sýn­ir að fyr­ir­komu­lag um „einn pott“ á strand­veiðum hef­ur ekki reynst vel. Það hef­ur leitt til rösk­un­ar byggðar, einkum á Norður- og Aust­ur­landi þar sem veiðar hefjast að jafnaði mun seinna, þ.e. í júlí-ág­úst en á öðrum svæðum t.d. á Suður- og Vest­ur­landi þar sem veiðar hefjast í maí. Að því leyti vinn­ur kerfið gegn sjálfu sér í stað þess að viðhalda jafn­ræði í sókn­ar­mögu­leik­um og ákveðnu magni á hverju svæði; A, B, C og D, sem lagt var upp með í upp­hafi strand­veiða 2009/​2010.“

Þá segja þeir Lands­sam­band smá­báta­eig­enda ekki hafa borið gæfu til þess að leggja fram „raun­hæf­ar til­lög­ur til stjórn­valda, held­ur stagl­ast á kröf­unni um 48 veiðidaga sem öll­um má ljóst vera að ekki er raun­hæf­ur kost­ur, því slíkt myndi þýða viðbót­arafla upp á um 10.000 tonn.“

„Hver hönd­in upp á móti ann­arri“

Rifja þeir upp að Svandís Svavars­dótt­ir hafi sem mat­vælaráðherra lagt fram frum­varp um að taka upp svæðis­skipt­ingu strand­veiða á ný.

„Frum­varpið var ekki samþykkt á því þingi og virt­ist hver hönd­in upp á móti ann­arri, miðað við um­sagn­ir sem fram komu í sam­ráðsgátt stjórn­valda. Til dæm­is vildu Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi leggja strand­veiðar af, á meðan Lands­sam­tök smá­báta­eig­enda kröfðust 48 veiðidaga. Öllum er ljóst að hvor­ug til­lag­an er raun­hæf.“

Í þeim til­gangi að kom­ast út úr þeirri patt­stöðu sem strand­veiðar virðast vera í leggja þeir Ein­ar, Jó­hann og Jón­as til ráðherra verði „gert skylt að fast­setja ákveðinn daga­fjölda fyr­ir hvern strand­veiðibát. Fjöldi heim­ilaðra veiðidaga skuli ráðast ann­ars veg­ar út frá þeim heim­ild­um sem ráðstafað er til strand­veiða ár hvert og hins veg­ar af fjölda báta sem sækja um heim­ild til strand­veiða.“

Þá verði heild­ar­fjöldi daga hvers báts sá sami hjá öll­um bát­um og skip­stjóra hvers báts heim­ilt að ákveða hvenær hann nýt­ir þá daga sem bát hans hef­ur verið út­hlutað á tíma­bil­inu apríl til sept­em­ber. Ónýtt­ir sókn­ar­dag­ar falla síðan niður að loknu veiðitíma­bili. Skip­stjór­arn­ir áætla að fjöldi báta sem hyggj­ast stunda strand­veiðar í sókn­ar­daga­kerf­inu þurfi að liggja fyr­ir með góðum fyr­ir­vara til að hægt verði að fast­setja fjölda sókn­ar­daga.

Segja mikið í húfi fyr­ir þjóðarbúið

Full­yrt er í yf­ir­lýs­ing­unni að „með þessu nýja fyr­ir­komu­lagi verður jafn­ræði tryggt milli ein­stakra báta. Þá mun afli af strand­veiðum dreifast jafn­ar yfir tíma­bil veiðanna. Einnig eru lík­ur á því að slysa­hætta minnki og dragi úr kapp­hlaupi um nýt­ingu auðlind­ar­inn­ar í vond­um veðrum með veiðum á verðlitl­um smá­fiski á grunn­slóð.“

„Gangi þessi breyt­ing eft­ir mun það stuðla að auk­inni hag­kvæmni, minni kostnaði og hvata til veiða þegar gæði afl­ans eru mik­il og fisk­verð hátt. Þá er ekki ólík­legt að heild­ar­verðmæti afla strand­veiðibáta auk­ist úr þeim 5 millj­örðum króna sem það var á sl. sumri í 6-7 millj­arða. Því er því mikið í húfi fyr­ir þjóðarbúið,“ segja þeir Ein­ar Sig­urðsson skip­stjóri á Birni Jóns­syni ÞH-345, Jó­hann A. Jóns­son skip­stjóri á Garðari ÞH-122 og Jón­as Ragn­ars­son skip­stjóri á Ragga ÍS- 419.

mbl.is