Samherji hafði betur gegn Odee

Fallist var á öllur kröfur Samherja vegna ólögmætrar notkunar hugverki …
Fallist var á öllur kröfur Samherja vegna ólögmætrar notkunar hugverki félagsins. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Fall­ist var í dag á all­ar kröf­ur Sam­herja hf. í máli sem fé­lagið höfðaði gegn Odee Friðriks­syni (áður Odd­ur Ey­steinn Friðriks­son) í Bretlandi vegna brota á vörumerkja­rétt­ind­um þess. Fór málið fyr­ir sér­stak­an einka­mála­dóm­stól í London (High Court of Justice).

Odd­ur Ey­steinn setti á síðasta ári upp heimasíðu í nafni Sam­herja með breskri léna­skrán­ingu þar sem látið var líta út eins og Sam­herji viður­kenndi meint brot í Namib­íu­mál­inu og baðst af­sök­un­ar. Með at­hæf­inu not­færði hann sér hug­verk í eigu Sam­herja.

„Var um­rædd síða lát­in líta út fyr­ir að vera raun­veru­leg vefsíða í eigu Sam­herja. Þá dreifði hann fölsk­um til­kynn­ing­um í nafni fé­lags­ins. Með dómi sem kveðinn var upp í morg­un kem­ur fram að Oddi Ey­steini hafi verið þetta óheim­ilt og var máls­ástæðum hans um list­ræn­an gjörn­ing hafnað,“ seg­ir í til­kynn­ingu á vef Sam­herja.

Bent er á að því sé í for­send­um dóms­ins „slegið föstu að notk­un vörumerk­is Sam­herja voð notk­un vörumerk­is Sam­herja við hönn­un vefsíðunn­ar hafi verið gerð í því skyni að ljá vefsíðunni trú­verðug­leika en ekki í þeim til­gangi að varpa fram gagn­rýni. Notk­un vörumerk­is og öll fram­setn­ing vefsíðunn­ar hafi verið eins og um væri að ræða op­in­bera vefsíðu fé­lags­ins. Þannig hafi hönn­un síðunn­ar hvorki falið í sér list­ræna skop­stæl­ingu né skrum­skæl­ingu sem rúm­ast inn­an þess tján­ing­ar­frels­is sem lista­menn njóta.”

Ekki ólög­mæt skerðing á tján­inga­frelsi

Þá var það niðurstaða dóm­ara að upp­setn­ing vefsíðunn­ar á léni með nafni fé­lags­ins og vís­vit­andi fram­setn­ing rangra upp­lýs­inga á síðunni hafi falið í sér ásetn­ing um blekk­ing­ar.

Ekki var fall­ist á að slík niðurstaða feli í sér ólög­mæt­ar skerðing­ar á tján­ing­ar­frelsi þar sem tján­ing­ar­frelsi get­ur sætt tak­mörk­un­um vegna lög­bund­inna rétt­inda annarra og þar und­ir falla vörumerkja- og hug­verka­rétt­indi.

„Við erum að sjálf­sögðu ánægð með þessa niður­stöðu. Við vor­um knú­in til þess að verja vörumerki okk­ar með máls­höfðun þegar öll­um mild­ari úrræðum var hafnað. Dóm­ur­inn er af­drátt­ar­laus um hvað geti flokk­ast sem list­ræn tján­ing og hvað telj­ist mis­notk­un á skráðu vörumerki. Sú niðurstaða hlýt­ur að vera al­var­legt um­hugs­un­ar­efni fyr­ir þær mennta­stofn­an­ir sem lögðu bless­un sína yfir aug­ljós vörumerkja­brot und­ir for­merkj­um list­sköp­un­ar,“ seg­ir Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja hf.

mbl.is