130 þúsund tonna upphafskvóti í makríl

Marianne Sivertsen Næss, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir útgáfu upphafskvóta í makríl …
Marianne Sivertsen Næss, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir útgáfu upphafskvóta í makríl til norskra skipa tryggja að þeir sem stenfa á að hefja veiðar snemma geti gert það. Ljósmynd/Nærings- og fiskeridepartementet

Viðræður strand­ríkja í London á mánu­dag og í gær á vett­vangi Norðaust­ur-Atlants­hafs­fisk­veiðiráðsins (NEAFC) um skipt­ingu hlut­deilda í mak­ríl virðast ekki hafa skilað til­ætluðum ár­angri og hef­ur norska at­vinnu- og sjáv­ar­út­vegs­ráðuneytið ákveðið að upp­hafskvóti norskra skipa í mak­ríl vegna árs­ins 2025 verði 130 þúsund tonn.

Þessi upp­hafskvóti er 22,52% af þeim 576.958 tonna há­marks­afla sem Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðið (ICES) ráðlegg­ur á næsta ári.

„Á meðan enn eigi eft­ir að finna lausn á skipt­ingu (hlut­deilda) mak­ríls, höf­um við ákveðið upp­hafskvóta fyr­ir árið þannig að við tryggj­um að sá hluti flot­ans sem byrj­ar snemma fái tæki­færi til að hefja veiðar. End­an­leg­ur kvóti verður ákveðinn vel áður en veiðar hefjast að fullu,“ seg­ir Mari­anne Si­vertsen Næss sjáv­ar­út­vegs- og hafráðherra Nor­egs í til­kynn­ingu á vef ráðuneyt­is­ins.

Síðastliðið sum­ar gerði Nor­eg­ur, Fær­eyj­ar og Bret­land samn­ing sín á milli um skipt­ingu ígildi 72% ráðlagðs há­marks­afla í mak­ríl til þriggja ára. Evr­ópu­sam­bandið, Ísland og Græn­land eru utan þessa sam­komu­lags og gefa öll svo­kölluð strand­ríki út kvóta til sinna skipa sjálf­stætt.

Fyr­ir árið 2024 nam ráðgjöf ICES 739.386 tonn, en ráðið ger­ir ráð fyr­ir að strand­rík­in veiði 954.112 tonn af mak­ríl á ár­inu. Að óbreyttu verður einnig veitt um­fram vís­inda­lega ráðgjöf á næsta ári.

mbl.is