„Ég er á margan hátt nokkuð bjartsýnn“

Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson, Vilhelm Þoirsteinsson.
Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson, Vilhelm Þoirsteinsson. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Það mik­il­væg­asta í umræðunni um ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg er alþjóðleg sam­keppn­is­hæfni hans, seg­ir Þor­steinn Már Bald­vins­son for­stjóri Sam­herja í færslu á vef út­gerðar­inn­ar.

„Ég er á marg­an hátt nokkuð bjart­sýnn á árið. Ný rík­is­stjórn seg­ir brýnt að auka verðmæta­sköp­un og stöðug­leika í efna­hags­líf­inu, sem ég tek heils­hug­ar und­ir. Lyk­il­atriði í þess­um efn­um er að út­flutn­ings­grein­ar okk­ar séu sam­keppn­is­hæf­ar á alþjóðleg­um mörkuðum. Ég tel að sjáv­ar­út­veg­ur geti lagt tölu­vert af mörk­um til þessa mik­il­væga mark­miðs og von­andi ber okk­ur gæfu til að at­vinnu­grein­in geti átt gott og ár­ang­urs­ríkt sam­starf við stjórn­völd um aukna verðmæta­sköp­un í út­gerð, fisk­vinnslu og fisk­eldi,“ seg­ir hann.

Útskýr­ir Þor­steinn að Sam­herja hafi tek­ist að hafa vinnsl­una starf­andi alla virka daga síðasta árs, nema tvo daga í nóv­em­ber sök­um veðurs.

Markaður­inn kall­ar eft­ir því að það sé stöðugt fram­boð afurða alla daga árs­ins að sögn hans. en um nokk­urt skeið hef­ur verið rætt um mik­il­vægt sam­keppn­is­for­skot sem mynd­ast við að geta tryggt viðskipta­vin­um stöðug­leika í af­hend­ingu afurða.

„Þessa dag­ana nýt­um við til dæm­is allt það pláss sem gefst í flugi frá land­inu til að koma afurðum okk­ar til kaup­enda. Fersk­ur ís­lensk­ur fisk­ur var kom­inn á diska neyt­enda 4. janú­ar.“

Kem­ur fram í færsl­unni að ís­fisk­tog­ar­ar Sam­herja héldu til veiða skömmu eft­ir miðnætti fimmtu­dag­inn 2. janú­ar 2025 og vinnsla í land­vinnsl­um fé­lags­ins hófst um morg­un­inn. Upp­sjáv­ar­skipið Vil­helm Þor­steins­son og frysti­tog­ar­inn Snæ­fell fóru til veiða 3. janú­ar.

Keppa við lág­launa­svæði

„Víða um land eru kraft­mik­il sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki með fjölda fólks í vel launuðum heils­árs­störf­um. Und­ir er ekki aðeins lífsaf­koma sjó­manna og starfs­fólks í landi held­ur einnig rekst­ur þeirra fyr­ir­tækja sem þjón­usta sjáv­ar­út­veg­inn,“ seg­ir Þor­steinn.

Bend­ir hann á að stærstu hvít­fisk­vinnsl­ur séu nú að finna í Póllandi og Kína þar sem launa­kostnaður er aðeins brot af launa­kostnaði fyr­ir­tækja á Íslandi. „Íslensk­ur sjáv­ar­út­veg­ur er að velta inn­an við 400 millj­örðum króna á meðan sjáv­ar­út­veg­ur­inn í Nor­egi velt­ir um 2.300 millj­örðum króna. Við erum með öðrum orðum ekki stór í þess­um sam­an­b­urði.“

„Verðmæta­sköp­un­in bygg­ist meðal ann­ars á flók­inni og tækni­legri vinnslu, bæði til sjós og lands. Tækni­fram­far­ir og fjár­fest­ing­ar eru for­send­ur sam­keppn­is­hæfni og fyr­ir­tæk­in þurfa að tryggja viðskipta­vin­um sín­um gæðaaf­urðir alla daga árs­ins. Þess­ar staðreynd­ir skul­um við hafa í huga í allri umræðunni, sem á það til að fara út og suður,“ seg­ir Þor­steinn í færsl­unni.

mbl.is