Þorbjörg: „Auðvitað algjörlega óboðleg staða“

Þorbjörg ræddi við mbl.is um stöðu fangelsismála.
Þorbjörg ræddi við mbl.is um stöðu fangelsismála. mbl.is/Eyþór

Dóms­málaráðherra hef­ur óskað eft­ir gögn­um um halla­rekst­ur Fang­els­is­mála­stofn­un­ar en til stend­ur að fara í hagræðing­araðgerðir á borð við það að hægja á boðun fanga í afplán­un. Í nú­tíma­sam­fé­lagi er óboðlegt að menn afpláni ekki sína dóma.

Þetta seg­ir Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir dóms­málaráðherra í sam­tali við mbl.is.

80 millj­óna króna halli er á rekstri Fang­els­is­mála­stofn­un­ar og Birg­ir Jón­as­son, sett­ur fang­els­is­mála­stjóri, kynnti í des­em­ber ýms­ar hagræðing­ar­til­lög­ur.

Meðal þeirra eru til­lög­ur um að hægja á boðun nýrra fanga í afplán­un sem eru á boðun­arlista, sem eru um 700, og fækka um allt að sex stöðugild­i fanga­varða vegna fjár­skorts.

Hef­ur óskað eft­ir nán­ari gögn­um

„Ég hef óskað eft­ir nán­ari upp­lýs­ing­um um þessa tölu. Mér finnst í fljótu bragði að þess­ar töl­ur ættu ekki að kalla á svo rót­tæk­ar aðgerðir. Þess vegna óskaði ég líka eft­ir gögn­um um það hverj­ar töl­urn­ar séu og hvað þetta þýðir,“ seg­ir Þor­björg.

Birg­ir sagði ekki ólík­legt að hagræðing­in myndi hafa þau áhrif að dóm­ar muni í aukn­um mæli fyrn­ast. Fleiri glæpa­menn gætu því sloppið við afplán­un.

Óboðlegt að dóm­ar fyrn­ist

„Mér finnst að í nú­tíma­sam­fé­lagi sé það auðvitað al­gjör­lega óboðleg staða að menn sem dæmd­ir hafa verið fyr­ir af­brot af dóm­stól­um lands­ins afpláni ekki þá dóma. Sér í lagi ef ástæðan er sú að það eru yf­ir­völd sem ekki kalla þá inn til afplán­un­ar. Þannig það er al­gjör­lega mark­mið mitt sem dóms­málaráðherra að svo sé ekki,“ seg­ir Þor­björg.

Hún ætl­ar að skoða nán­ar fjár­hag Fang­els­is­mála­stofn­un­ar og sjá hvort að hægt sé að forðast of af­drifa­rík­ar aðgerðir vegna halla­rekst­urs­ins.

mbl.is