Aldrei meira af íslenskum eldisfiski

Framleiðslumet var sett í fiskeldi á Íslandi á síðasta ári. …
Framleiðslumet var sett í fiskeldi á Íslandi á síðasta ári. Aldrei hefur verið framleitt meira af laxi og senegalflúru. mbl.is/Helgi Bjarnason

Fram­leidd voru 54.789 tonn af eld­is­fiski á Íslandi á síðasta ári og er það meira magn en nokkru sinni fyrr. Um er að ræða 9,6% meira magn en fram­leitt var 2023. Mun­ar mestu um lax en fram­leiðsla hans jókst um 5.730 tonn milli ára, en hlut­falls­lega varð mesta aukn­ing­in í senegal­flúru og var hún 43% meiri 2024 en árið á und­an.

„Það var fyr­ir­séð að nokk­ur aukn­ing yrði í lax­eld­inu á milli ára, en þó eng­in stór stökk,“ seg­ir Gísli Jóns­son, sér­greina­dýra­lækn­ir fisk­sjúk­dóma hjá Mat­væla­stofn­un. Hann minn­ir á að blóðþorri, svo­kölluð ISA-veira, hafi haft veru­leg áhrif á fram­leiðslu­magnið á Aust­fjörðum árið 2023.

„Tölu­verðu magni af laxi þurfti að farga í lok árs 2021 og fram eft­ir ári 2022 þegar bæði Reyðarfjörður og Beru­fjörður voru tæmd­ir af fiski til að hefta frek­ari út­breiðslu veirunn­ar. Eft­ir 9 mánaða stopp hjá Bú­landstindi á Djúpa­vogi hófst slátrun aft­ur í byrj­un októ­ber 2023 og létu Aust­f­irðing­ar mikið til sín taka við slátrun allt árið 2024,“ seg­ir hann.

Gísli seg­ir um­fangs­mikl­ar skiman­ir hafa verið fram­kvæmd­ar allt frá því að veir­an greind­ist fyrst og svæðið vaktað, en ekk­ert hafi sést til henn­ar frá því að firðirn­ir voru tæmd­ir.

Þurfti að farga laxi á Tálknafirði

„Á Vest­fjörðum var hins veg­ar nokkuð jafn gang­ur í fram­leiðslu á slát­ur­laxi allt árið í fyrra. Þar þurfti aft­ur á móti að farga tals­vert af und­ir­máls laxi í Tálknafirði haustið 2023 vegna ágangs laxal­ús­ar og setti það strik í reikn­ing­inn við slátrun og vinnslu bæði hjá Arn­ar­laxi og Arctic Sea Farm á liðnu ári,“ seg­ir Gísli.

Fram­leidd voru 27.932 tonn af laxi í sjókvía­eldi á Vest­fjörðum á síðasta ári sem er rúm­lega fimmt­ungi minna magn en fram­leitt var 2023, en það ár var sett fram­leiðslu­met í lands­hlut­an­um.

Á Aust­fjörðum varð hins veg­ar rúm þreföld­un í fram­leiðslunni milli ára og var slátrað 17.752 tonn­um úr sjókví­um þar í fyrra. Er þetta mesta magn á Aust­fjörðum frá upp­hafi.



Þá var á síðasta ári einnig sett met í land­eld­inu og voru fram­leidd 3.569 tonn af laxi á síðasta ári með þeirri aðferð og er það 893 tonna aukn­ing frá ár­inu 2023. Á tíma­bil­inu 2019 til 2024 jókst fram­leiðsla lax­eld­is á landi um rúm 117%.

„Land­eldið er hægt og síg­andi að fær­ast í auk­ana og á liðnu ári má segja að First Water í Þor­láks­höfn hafi af al­vöru stigið inn á sviðið og nart­ar orðið í hæl­ana á Sam­herja sem hef­ur til þessa verið leiðandi í lax­eldi á landi á liðnum ára­tug­um,“ seg­ir Gísli.

Fram­leiddi Sam­herji um 1.600 tonn af laxi með land­eldi sínu en First Water 1.519 tonn. Gísli bend­ir á að fram­leiðsla geti auk­ist á þessu ári og nefn­ir að þegar líður á þetta ár má vænta að hefj­ist slátrun hjá Lax­ey í Vest­manna­eyj­um.

Elds­um­brot hamla bleikj­unni

Veru­leg­ur sam­drátt­ur hef­ur orðið í bleikju­eld­inu milli ár­anna 2023 og 2024, fór fram­leiðslan úr 5.248 tonn­um í 4.778 tonn.

Elds­um­brot og jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesi skýra mikið af þess­ari þróun að sögn Gísla, en bæði Matorka og Sam­herji reka öfl­ug­ar bleikju­eld­is­stöðvar rétt vest­an við Grinda­vík. „Auk þess hef­ur borið á að litl­ar bleikju­stöðvar hafa átt erfitt upp­drátt­ar og ein­hverj­ar munu ef­laust hætta rekstri á næst­unni.“

Há­stökkvari árs­ins 2024 í hlut­falls­legri fram­leiðslu­aukn­ingu var eins og áður sagði, senegal­flúr­an. Nam fram­leiðslan 558 tonn á síðasta ári en 390 tonn árið 2023. Gísli ger­ir ráð fyrri að hún að óbreyttu haldi áfram að vaxa.

Um er að ræða mjög verðmæt­an mat­fisk og var ný­verið greint frá því að út­flutn­ings­verðmæti senegal­flúru jókst um 75% milli ára og var á síðasta ári um 1.400 millj­ón­ir króna.

Erfið staða regn­bogasil­ungs

Slátrað var 200 tonn­um af regn­bogasil­ungi 2024 sem er tæp­lega 76% minna magn en fram­leitt var 2023.

„Reikna má með að fram­leiðslan verði einnig nokk­urn veg­inn á þessu róli árið 2025. Eini eldisaðil­inn í dag er sam­eig­in­legt fé­lag Há­brún­ar (með kví­ar í Skutuls­firði) og ÍS-47 ( meðkví­ar í Önund­arf­irði). Fé­lagið hef­ur átt í brasi með að koma sér upp al­menni­legri klak- og seiðastöð og því hef­ur „nýliðun“ til áframeld­is staðið á sér. For­ráðamenn þess­ara fyr­ir­tækja hafa hug á að skipta yfir í lax þegar fram líða stund­ir,“ seg­ir Gísli.

mbl.is