Käärijä flytur Cha Cha Cha á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar

Cha Cha Cha með Käärijä hefur verið mjög vinsælt lag …
Cha Cha Cha með Käärijä hefur verið mjög vinsælt lag hér á landi.

Söngv­akeppn­in 2025 hefst á laug­ar­dag­inn þegar fyrri fimm lög­in verða flutt. Seinni fimm lög­in keppa 15. fe­brú­ar en sjálft úr­slita­kvöldið verður 22. fe­brú­ar þegar kosið verður um fram­lag Íslend­inga í Eurovisi­on þetta árið. 

Það verður nóg um að vera á viðburðunum en meðal þeirra sem koma fram er finnski söngv­ar­inn Käärijä sem hafnaði í 2. sæti í Eurovisi­on 2023 með lagið Cha Cha Cha. Lagið hef­ur notið gríðarlegra vin­sælda hér á landi. Með hon­um stíg­ur á svið sænski elektróniski dú­ett­inn Hooja sem er að slá í gegn á Norður­lönd­un­um. Upp­selt er á úr­slita­kvöldið en enn eru laus­ir miðar á fjöl­skyldurennslið. 

Í skýj­un­um með allt lista­fólkið

Herra Hnetu­smjör, Jó­hanna Guðrún og Aron Can opna kvöld­in þrjú. Hera Björk, sig­ur­veg­ari söngv­akeppn­inn­ar í fyrra, kem­ur einnig fram á úr­slita­kvöld­inu. Aron Can mun opna keppn­ina þann 8. fe­brú­ar, Jó­hanna Guðrún þann 15. fe­brú­ar og Herra Hnetu­smjör 22. fe­brú­ar. 

„Við erum í skýj­un­um yfir því að fá allt þetta frá­bæra lista­fólk með okk­ur á stóra sviðið í. Käärijä hef­ur til að mynda notið gríðarlegra vin­sælda hér á landi og það verður gam­an að sjá hann trylla áhorf­end­ur í höll­inni á úr­slita­kvöld­inu. Áhorf­end­ur munu al­veg ör­ugg­lega gleðjast yfir Heru, Aroni Can, Hr. Hnetu­smjör og Jó­hönnu Guðrúnu sem mun meðal ann­ars taka lagið Is it true sem lenti í 2. sæti í Eurovisi­on 2009. Og hún verður ekki ein á sviðinu, því bakradd­irn­ar sem voru með henni í Moskvu 2009, þau Friðrik Ómar, Hera Björk og Erna Hrönn, ætla að vera með henni. Svo verða líka alls kon­ar uppá­kom­ur. Ég veit að kynn­arn­ir okk­ar, þau Benni, Fann­ar og Gunna Dís, munu bjóða upp á ansi margt skemmti­legt. Ég held að nú geti fjöl­skyld­ur lands­ins farið að hlakka til,“ seg­ir Rún­ar Freyr Gísla­son fram­kvæmda­stjóri Söngv­akeppn­inn­ar í frétta­til­kynn­ingu.

„Þetta verður frá­bær keppni í ár, lög­in eru fjöl­breytt og góð og atriðin lofa svo sann­ar­lega góðu."

mbl.is