Margir kostnaðarliðir óháðir þyngd

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eyþór

Frum­varp um kíló­metra­gjald á öku­tæki verður lagt fyr­ir Alþingi á ný fljót­lega. Það er að stofn­in­um til eins og frum­varp fyrri rík­is­stjórn­ar en þá var miðað á að gjaldið yrði að lög­um fyr­ir ára­mót.

Þetta sagði Daði Már Kristó­fers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, í sam­tali við mbl.is í dag.

Tekið til­lit til at­huga­semda

Seg­ir Daði að tekið hafi verið til­lit til sumra at­huga­semda sem gerðar höfðu verið við frum­varpið áður fyrr.

„Ég reikna með að það verði lagt fram mjög fljót­lega. Það var auðvitað mjög langt komið í ráðuneyt­inu þegar ég tók við.“

Vegslit ekki eini kostnaður­inn

Á meðal þeirr­ar gagn­rýni sem frum­varp um kíló­metra­gjöld hef­ur fengið áður er að sama gjald verði tekið óháð þyngd bíl­anna.

Spurður hvort sú gagn­rýni hafi verið á meðal at­huga­semda sem tekið var til­lit til seg­ir Daði að slit á veg­um fari vissu­lega eft­ir þyngd bíl­anna sem þar keyra. Hins veg­ar sé það ekki eini kostnaður­inn.

„Við þurf­um að hanna veg­ina, byggja þá, halda þeim opn­um, sinna á þeim lög­gæslu og merkja þá. All­ir þess­ir kostnaðarliðir eru óháðir þyngd bíls­ins sem keyr­ir á veg­in­um.“

Seg­ir hann því að sá hluti ferl­is­ins er snýr að þyngd sé ekki svo stór kostnaðarliður fyr­ir minni bif­reiðar.

„Þetta er svona spurn­ing um hversu flókið kerfið eigi að vera miðað við hags­mun­ina um það að það taki til­lit til kostnaðarliða sem eru kannski lítið breyti­leg­ir.“

Þurfi kannski að horfa til beggja sjón­ar­miða

Seg­ir Daði hins veg­ar að fyr­ir þyngri bíla fari vegslit að skipta meira máli sem kostnaðarliður.

„Þannig að það tog­ast á þarna sjón­ar­mið ein­fald­leika og gagn­sæ­is ann­ars veg­ar og 100% full­kom­inn­ar sann­girni hins veg­ar og þegar það hleyp­ur á aurn­um frek­ar en krón­unni þá þurf­um við kannski að horfa til beggja sjón­ar­miða.“

mbl.is