Útvegaði sjálfur lyfið sem honum var byrlað

Video Player is loading.
Current Time 0:00
Duration 2:06
Loaded: 0.00%
Stream Type LIVE
Remaining Time 2:06
 
1x
  • Chapters
  • descriptions off, selected
  • subtitles off, selected
  • default, selected

Eit­ur­efna­fræðing­ur tel­ur að Páll Stein­gríms­son hafi óaf­vit­andi inn­byrt um 15-20 töfl­ur af lyf­seðils­skylda svefn­lyf­inu imovane. Fjór­ar töfl­ur geta reynst ban­vænn skammt­ur. Og hurð skall nærri hæl­um.

Þetta kem­ur fram í viðtali við Pál í Spurs­mál­um. Þar er hann spurður út í at­b­urðarás­ina sem nán­ast dró hann til dauða. Þar er hann meðal ann­ars spurður út í hvaða efni hann telji að sér hafi verið byrlað.

Sýni voru ekki tek­in

Vand­inn er hins veg­ar sá að lög­regla gerði af­drifa­rík mis­tök í mál­inu þegar Páll var flutt­ur á sjúkra­hús á Ak­ur­eyri og í kjöl­farið til Reykja­vík­ur, nær dauða en lífi. Ekki var gerð blóðrann­sókn til þess að leita eft­ir efn­inu sem þarna átti í hlut. Það var ekki gert, jafn­vel þótt fram hafi komið í sím­tali til neyðarlínu að grun­ur væri uppi um að hon­um hefði verið byrlað ólyfjan.

Páll hef­ur haldið því fram allt frá ár­inu 2021 að fyrr­um eig­in­kona hans hafi byrlað hon­um lyf­inu í því skyni að kom­ast yfir síma hans og í fram­hald­inu í hend­ur starfs­manna Rík­is­út­varps­ins.

Eng­inn botn hef­ur feng­ist í það mál. Lög­regla felldi málið niður, meðal ann­ars vegna þess að starfs­menn RÚV sýndu lít­inn sam­starfs­vilja og töfðu málið með þeim af­leiðing­um að fyrn­ing­ar­frest­ur sam­kvæmt saka­mála­lög­um leið.

Lýs­ing­ar á lyf­inu

Orðaskipt­in um lyfið sem Páll tel­ur að sér hafi verið byrlað má sjá í spil­ar­an­um hér að ofan en þau eru einnig rak­in í text­an­um hér að neðan:

Hvaða efni er þetta?

„Imovane, svefn­lyf. Fyr­ir óvana mann­eskju þá eru fjór­ar pill­ur lífs­hættu­leg­ar.“

Þú ert nú helj­ar­menni að vöxt­um.

„Já, ég er yfir tveir metr­ar og 120 kíló, já þannig að það má segja að stærðin hafi bjargað mér í þetta skipti.“

Kölluð út á flug­völl til hinstu kveðju

Þú lifðir þetta af aug­ljós­lega, þess vegna ert þú hér. En það mátti litlu muna. Börn­in þín eru kölluð, nán­ast á dán­ar­beð.

„Já, já. Börn­in mín voru kölluð út á flug­völl og fyrr­ver­andi tengda­móður mín og þeim var bara ráðlagt að kveðja mig. Það var bara ekki talið víst að ég myndi hafa þetta af og lík­urn­ar voru reynd­ar ekki mér í hag.“

En það eru eng­ar sann­an­ir fyr­ir því að þetta efni hafi verið sett í bjór­inn.

„Nei. Það eru eng­ar bein­ar sann­an­ir vegna þess að það var ekki leitað eft­ir því.“

Þekk­ir bragðið af imo­ven

En hvernig veistu þá að það var þetta svefn­lyf?

„Af því að ég þekkti bragðið af því.“

Þú hef­ur tekið svona töfl­ur áður?

„Já. Þegar ég var að byrja sem stýri­maður, og maður var að rétta sig af og maður var á næt­ur­vökt­um þá var hjúkr­un­ar­fræðing­ur sem tengd­ist mér fjöl­skyldu­bönd­um, ég var að ræða við hana um það hvað mér gengi illa að snúa sól­ar­hringn­um við. Hún sagði, taktu bara þetta lyf, þú þarft þetta í þrjá daga og það var bara það sem ég gerði. Þegar ég byrjaði eft­ir frí sem stýri­maður þá tók ég þetta bara í þrjá daga og þá var ég bú­inn að snúa sól­ar­hringn­um við.“

En er þetta lyf­seðils­skylt lyf?

„Já.“

Hafði út­vegað eig­in­kon­unni fyrr­ver­andi lyfið

Og var þetta lyf á heim­il­inu eða?

„Nei, mín fyrr­ver­andi hef­ur sam­band við mig, og þessi sam­skipti eru meira að segja til. Óskar eft­ir því eða spyr mig hvort ég geti reddað þessu því henni gangi eitt­hvað illa að sofa. Og ég á vin sem er lækn­ir og ég bið hann um að bjarga þessu. Ég geri það 20. apríl.“

Þannig að það er vitað að hún hafði þessi efni und­ir hönd­um?

„Já, hún leysti þau út. Það er á hreinu.“

Viðtalið við Pál má sjá í heild sinni í spil­ar­an­um hér að neðan:

mbl.is