Fjárfesta fyrir 1.300 milljónir króna

Arctic Fish hefur fest kaup á fóðurpramma af gerðinni Aasgard …
Arctic Fish hefur fest kaup á fóðurpramma af gerðinni Aasgard frá Scale AQ Mynd/Arctic Fish

Fisk­eld­is­fyr­ir­tækið Arctic Fish hef­ur ákveðið að fjár­festa í nýj­um tækj­um og búnaði frá fjór­um fyr­ir­tækj­um fyr­ir 1.300 millj­ón­ir króna, að því er seg­ir í til­kynn­ingu á Face­book-síðu fé­lags­ins.

Und­ir­ritaðir hafa verið samn­ing­ar við Scale AQ um kaup á nýj­um fóðurpramma og ýms­um búnaði fyr­ir eld­is­stöðina í Hvanna­dal í Tálknafirð auk þess sem samn­ing­ur hef­ur verið und­ir­ritaður við Fjord Ma­ritime um kaup á raf­geymi fyr­ir pramm­ann. Þá hef­ur einnig verið fest kaup á eld­is­búnaði frá Mor­enot og Fiizk.

Fjár­fest­ing­arn­ar eru sagðar styðja við stefnu fé­lags­ins um aukið ör­yggi starfs­fólks, betri dýra­vel­ferð og minna álags á um­hverfið.

750 tonn af fóðri

„Fóðurpramm­inn sem um ræðir er úr Aasgard línu Scale AQ og er sá fyrsti af þess­ari stærð sem fé­lagið fram­leiðir. Hann get­ur tekið allt að 750 tonn af fóðri og get­ur fóðrað 8 kví­ar sam­tím­is. Pramm­inn er bú­inn allri nýj­ustu tækni til að stýra fóðrun og Fjord ma­ritime mun setja í hann raf­hlöður sem ljósa­vél­ar fram­leiða raf­magn inn á sem nýtt er til að keyra pramm­ann. Með því að hafa raf­hlöður minnk­ar keyrslu­tími ljósa­vél­anna sem eyk­ur end­ingu þeirra, dreg­ur úr viðhaldi og  eldsneyt­is­notk­un um allt að 70%,“ sgeir í til­kynn­ing­unni.

Þá voru keypt níu 200 metra kví­ar og kerf­is­fest­ing­ar fyr­ir eld­is­stöðina í Hvanna­dal í Tálknafirði. Þær koma einnig frá Scale AQ. Fé­lagið hef­ur um nokk­urt skeið haft þessa teg­und af kví­um í notk­un. „Með því að fara úr kví­um sem eru 160 metr­ar í um­mál í 200 metra fær fisk­ur­inn enn meira pláss sem er mik­il­vægt í þeim veðrum sem geta komið á Vest­fjörðum.“

Ljós­mynd/​Arctic Fish

Sterk­ari neta­pok­ar og lúsa­pils

Af Mor­enot, dótt­ur­fé­lagi Hampiðjunn­ar, eru keypt­ir á fjórða tug HDPE neta­pok­ar sem er sagt mun sterk­ara efni en fé­lagið hef­ur áður notað.

„Þess­ir neta­pok­ar eru úr efni sem ekki eru notaðar ásætu­varn­ir á og eru því enn um­hverf­i­s­vænni en fyrri teg­und­ir. Þeir þola enn meira álag en fyrri gerðir sem dreg­ur úr lík­um á stroki. Sam­hliða þessu er fé­lagið í nánu sam­starfi við Hampiðjuna á Ísaf­irði um viðhald á neta­pok­um og öðrum búnaði fé­lags­ins. Hampiðjan hef­ur meðal ann­ars á grund­velli þessa samn­ings stór­eflt þjón­ustu sína í nýrri þjón­ustumiðstöð fé­lags­ins á Ísaf­irði á síðustu árum en þar starfa nú hátt í 30 manns.“

Fjör­tíu lúsa­pils voru einnig keypt, en þessi segl draga úr ágengi í laxa- og fiskilúsa með því að tak­marka leið lúsal­irfa í kví­arn­ar.

„Pils­in eru keypt frá Fiizk. Fé­lagið hef­ur notað lúsa­pils með góðum ár­angri síðast liðin ár sem vörn við ágangi lús­ar á lax­inn í kví­un­um en með þessu geng­ur fyr­ir­tækið enn lengra í fyr­ir­byggj­andi aðgerðum gegn lús­inni en áður.“

mbl.is