Þórdís Kolbrún: Endurspegli reynsluleysi

Þórdís sagði áhugavert fyrir sig, eftir sjö ára setu í …
Þórdís sagði áhugavert fyrir sig, eftir sjö ára setu í ríkisstjórn að heyra um svokallað nýtt verklag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dótt­ur, þing­manni Sjálf­stæðis­flokks, var tíðrætt um nýtt verklag í rík­is­stjórn Íslands í umræðum um stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra á Alþingi í kvöld.

Sagði hún áhuga­vert fyr­ir sig, eft­ir sjö ára setu í rík­is­stjórn að heyra um svo­kallað nýtt verklag.

Þór­dís benti þing­heimi á að það væri ekki nýtt verklag að gengið sé inn í ráðuneyti án þess að spyrja hvernig hlut­irn­ir hafi verið unn­ir þar og vísaði til orða for­sæt­is­ráðherra þar um.

Þá sagði Þór­dís ekki held­ur nýtt verklag að for­sæt­is­ráðherra fundi eins­lega með öll­um ráðherr­um til að und­ir­búa þing­störf.

„En það væri vissu­lega nýj­ung ef rétt reyn­ist að það sé full ein­ing í meiri­hlut­an­um um öll þau 107 mál sem birt­ast í þing­mála­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar og eiga að skila sér til þings­ins á næstu sjö vik­um. Ég held reynd­ar að það verði ekki al­veg þannig,“ sagði Þór­dís.

Þeir vildu ekki hafa kóng

Þór­dís sagði ekk­ert af því sem Kristrún Frosta­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra vísaði til í stefnuræðu sinni sem nýju verklagi vera það í raun og veru held­ur eitt­hvað sem end­ur­spegli helst reynslu­leysi það sem ný rík­is­stjórn þurfi að glíma við.

Fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherr­ann, Þór­dís Kol­brún, sagðist hafa saknað þess í stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra að al­var­leik­inn í ut­an­rík­is­mál­um birt­ist í ræðunni og sterk­ari skoðun for­sæt­is­ráðherra á því hver verk­efn­in framund­an séu.

Þór­dís Kol­brún gerði stöðu stjórn­mál­anna í Banda­ríkj­un­um að um­tals­efni og benti á að stjórn­ar­skrá Banda­ríkj­anna hafi verið upp­full af marg­vís­leg­um aðferðum til þess að tryggja að ólík­ir þræðir rík­is­valds­ins hefðu full­komið sjálf­stæði frá hver öðrum, hefðu getu til þess að veita hver öðru aðhald og gætu gripið í taum­ana ef í óefni stefndi.

„Því þótt þeir sem stofnuðu Banda­rík­in hafi ekki verið sam­mála um alla hluti - þá voru þeir sam­mála um eitt. Þeir vildu ekki hafa kóng.“

For­sæt­is­ráðherra en ekki verk­efna­stjóri

„Frelsið tap­ast sjald­an allt í einu,“ sagði Þór­dís. Hún ræddi grund­völl lífs­kjara okk­ar og lífs­gæða sem sé ekki sjálf­gef­inn.

„Að varðveita jarðveg frels­is og halda í skefj­um þeim öfl­um sem vilja spilla hon­um, hvort sem það er í formi ut­anaðkom­andi ógn­ar, frek­legra stjórn­valda eða ægi­valds of­stæk­is eða hags­munafla, er verk­efni okk­ar allra, borg­ar­anna, at­vinnu­lífs­ins, fjöl­miðla, há­skóla­sam­fé­lags­ins.“

Sagði hún að augu okk­ar þurfi að vera opin, því mun fleiri en stjórn­völd í ör­fá­um ein­ræðis­ríkj­um vilji tak­marka frelsi okk­ar.

„Hags­mun­ir stórra ríkja, stórra stofn­ana og stórra fyr­ir­tækja er ekki alltaf vel hægt að sam­ræma við frelsi, ham­ingju og borg­ara­legt sjálf­stæði ein­stak­lings­ins.“

Að lok­um sagði Þór­dís Kol­brún að rík­is­stjórn­in muni dæm­ast af verk­um sín­um og benti á að hlut­verk for­sæt­is­ráðherra sé öðru frem­ur að leiða þjóðina, marka spor og vera fram­sýn en ekki að vera í hlut­verki verk­efna­stjóra.

„Ég vona að hæst­virt­um for­sæt­is­ráðherra og rík­is­stjórn­inni gangi vel. Nú reyn­ir á,“ sagði Þór­dís.

mbl.is