Gerðist síðast fyrir rúmlega öld

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis.
Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis.

Ragna Árna­dótt­ir, skrif­stofu­stjóri Alþing­is, mun í ág­úst láta af störf­um og taka við starfi for­stjóra Landsnets. Hún hef­ur gegnt starf­inu í tæp­lega sex ár og varð fyrst kvenna ráðin skrif­stofu­stjóri Alþing­is.

Hún verður fyrsti skrif­stofu­stjór­inn í meira en eina öld sem læt­ur af störf­um án þess að gera það sök­um ald­urs.

Frá því að lög um þingsköp Alþing­is voru samþykkt árið 1915 hafa skrif­stofu­stjór­ar Alþing­is verið nokkuð þaul­setn­ir og verður meðal­starfs­ald­ur þeirra nú þegar Ragna læt­ur af störf­um um 18 ár, ef frá eru tald­ar af­leys­ing­ar.

Verður Ragna sú sem hef­ur gegnt starf­inu styst á þess­ari rúmu öld.

Helgi Bernódusson var skrifstofustjóri Alþingis frá 2005 til 2019, en …
Helgi Bernód­us­son var skrif­stofu­stjóri Alþing­is frá 2005 til 2019, en þá lét hann af störf­um sök­um ald­urs. mbl.is/​Golli

Ekki til staðar frá upp­hafi

Eins og fram kem­ur á vef Alþing­is var starf skrif­stofu­stjóra ekki til staðar frá upp­hafi.

Á ráðgjaf­arþing­un­um frá 1845 til 1873 var staðan ekki til, en hins veg­ar höfðu for­set­ar Alþing­is sér­staka skrif­ara sér til aðstoðar.

Á lög­gjaf­arþing­un­um frá og með 1875 til árs­ins 1915 var ráðinn skrif­stofu­stjóri fyr­ir hvert þing, en árið 1915 voru sett lög um þingsköp Alþing­is og varð starf skrif­stofu­stjóra þá að föstu starfi veittu til sex ára í senn. Með launa­lög­um árið 1919 var starfið svo gert að föstu embætti.

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga í skák, varð síðar skrifstofustjóri …
Friðrik Ólafs­son, fyrsti stór­meist­ari Íslend­inga í skák, varð síðar skrif­stofu­stjóri Alþing­is frá 1984 til 2005. mbl.is/​Krist­inn

Sjö gegnt starf­inu

Frá ár­inu 1915 hafa eft­ir­tald­ir gegnt starf­inu:

  • Ein­ar Þorkels­son rit­höf­und­ur 1914-1922
  • Jón Sig­urðsson frá Kaldaðarnesi 1923-1956 (hann var jafn­framt sett­ur skrif­stofu­stjóri 1921-1922 í for­föll­um Ein­ars)
  • Friðjón Sig­urðsson lög­fræðing­ur 1956-1984
  • Friðrik Ólafs­son lög­fræðing­ur og skák­meist­ari 1984-2005
  • Ólaf­ur Ólafs­son lög­fræðing­ur var sett­ur skrif­stofu­stjóri í árs­leyfi Friðriks 1993-1994
  • Helgi Bernód­us­son 2005-2019
  • Ragna Árna­dótt­ir 2019-2025

Fyr­ir utan Ein­ar, sem var 55 ára þegar hann lét af störf­um sem skrif­stofu­stjóri, hættu þeir Jón, Friðjón, Friðrik og Helgi all­ir sök­um ald­urs þegar þeir urðu 70 ára.

Ragna er hins veg­ar ekki nema 58 ára og er því langt frá því að kom­ast á ald­ur. Hún er því fyrsti skrif­stofu­stjóri Alþing­is frá því árið 1922, þegar Ein­ar hætti, sem ekki læt­ur af störf­um sök­um ald­urs.

Friðjón Sigurðsson skrifstofustjóri Alþingis 1956-1984 ásamt frú Vigísi Finnbogadóttur, þáverandi …
Friðjón Sig­urðsson skrif­stofu­stjóri Alþing­is 1956-1984 ásamt frú Vigísi Finn­boga­dótt­ur, þáver­andi for­seta Íslands, á leið inn í þingsal Alþing­is. mbl.is/Ó​laf­ur K. Magnús­son
mbl.is