Fleiri banna búnað sem Ísland leyfir

Fjöldi skipa, sérstaklega flutningsaskip, nota búnað sem hreinsar útblástur þeirra …
Fjöldi skipa, sérstaklega flutningsaskip, nota búnað sem hreinsar útblástur þeirra en sturtar menguninni í sjóinn. AFP/Luis Acosta

Ríkj­um sem setja tak­mark­an­ir á notk­un út­blást­urs­hreinsi­búnað skipa sem dæl­ir menguðu skolvatni í sjó­inn (e. Scrubber) hef­ur fjölgað ört og eru þau nú 46 en voru 37 þegar 200 míl­ur kort­lögðu þau í maí á síðasta ári.

Frá þess­um tíma hafa Dan­ir, Sví­ar og Finn­ar ákveðið að banna notk­un þessa búnaðar al­farið og sæt­ir hann nokkr­um tak­mörk­un­um í Nor­egi, en ekki liggja fyr­ir skýr­ar tak­mark­an­ir á notk­un þessa búnaðar hér á landi.

Í maí verða liðin fimm ár frá því að Rann­sókn­ar­nefnd sam­göngu­slysa beindi því til stjórn­valda að skoða hvort til­efni væri til þess að banna svo­kallaðan opin vot­hreinsi­búnað við Íslands­strend­ur. Til­mæl­in komu í kjöl­far mik­ill­ar sót­meng­un­ar í Vest­manna­eyja­höfn árið 2019 eft­ir að Lag­ar­foss sleppti skolvatni í höfn­ina.

Í svari Um­hverf­is­stofn­un­ar við fyr­ir­spurn 200 mílna árið 2020 sagði að það kynni að vera ástæða til að end­ur­skoða ákvæði laga um hreinsi­búnað. Bent var þó á að það væri Alþing­is að setja lög og ráðherra að setja reglu­gerðir. Að því sem 200 míl­ur kom­ast næst liggja ekki fyr­ir skýr áform um að taka fyr­ir notk­un þessa búnaðar hér á landi.

Fimmtán ríki banna nú al­farið los­un skolvatns inn­an land­helgi sinn­ar og taka slík bönn gildi 1. júlí í Dan­mörku og Svíþjóð. Þá er los­un skolvatns bannað inn­an þriggja sjó­mílna frá landi í Frakklandi og Belg­íu.

Þá er bannað að losa skolvatns úr hreinsi­búnaðinum í höfn­um Króa­tíu, Portú­gals, Rúm­en­íu, Ken­íu, Pak­ist­ans, Ísra­els og á bresku eyj­unni Bermúda.

Los­un skolvatns er háð sér­stöku leyfi frá stjórn­völd­um á Kýp­ur en tak­mark­an­ir eru á inni­haldi skolvatns sem losað er í sjó í Lit­há­en, Eistlandi og Ástr­al­íu.

90% af meng­un í evr­ópsk­um höfn­um

Hreinsi­búnaður­inn dæl­ir inn sjó og úðar hon­um yfir út­blást­ur sem skip mynda við brennslu eldsneyt­is og binda meng­un­ar­efn­in í vökv­ann áður en út­blæstri er sleppt í and­rúms­loftið. Síðan er vökv­an­um með hinum meng­andi efn­um sleppt í sjó­inn.

Allt frá því að ákveðið var að heim­ila notk­un búnaðar­ins árið 2020 hef­ur verið þekkt að meng­un­in kunni að valda veru­leg­um áhrif­um á líf­ríki hafs­ins, sér­stak­lega á svæðum þar sem meng­un­in safn­ast sam­an.

Kom meðal ann­ars fram í rann­sókn Chal­mers tækni­há­skól­ans í Gauta­borg 2023 að það mætti lík­lega rekja meira en 90% af skaðleg­um efn­um, þar á meðal þrá­virk­um og krabba­meinsvald­andi PAH-efn­um, í höfn­um Evr­ópu til los­un­ar skolvatns úr þess­um hreinsi­búnaði.

mbl.is