Kolmunninn streymir til Neskaupstaðar

Kolmunna landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA. Börkur NK bíður löndunar.
Kolmunna landað úr Vilhelm Þorsteinssyni EA. Börkur NK bíður löndunar. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Smári Geirsson

Um nýliðna helgi báru upp­sjáv­ar­skip tæp­lega níu þúsund tonn af kol­munna til lönd­un­ar í Nes­kaupstað og er enn meiri afli á leiðinni af kol­munnamiðunum, að því er seg­ir í færslu á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

Fyrst kom Beit­ir NK með 2.600 tonn síðastliðinn föstu­dag og hélt skipið á miðin vest­ur af Írlandi strax að lönd­un lok­inni, en sigl­ing­in er um 850 sjó­míl­ur.

Kom í kjöl­farið Vil­helm Þor­steins­son EA með 3.100 tonn og svo Börk­ur NK með 3.200 tonn. Greint er frá því að lönd­un úr Vil­helm lauk í nótt og að lönd­un úr Berki hefst í kvöld.

Þrjú norsk skip á leiðinni

Þá eru þrjú norsk skip á leiðinni til Nes­kaupstaðar með kol­munna og er afl­inn sam­an­lagt um fimm þúsund tonn. Fyrsta af norsku skip­un­um er sagt vænt­an­legt miðviku­dags­kvöld.

Haft er eft­ir Hafþóri Ei­ríks­syni, verk­smiðju­stjóra í Nes­kaupstað, að kol­munn­inn sem nú fæst sé gott hrá­efni. „Hann skil­ar góðum afurðum, úr­vals­mjöli og tölu­verðu lýsi.“

Gert er ráð fyr­ir að skipað verði 2.200 tonn­um af fiski­mjöli frá Nes­kaupstað síðar í vik­unni.

mbl.is