Um nýliðna helgi báru uppsjávarskip tæplega níu þúsund tonn af kolmunna til löndunar í Neskaupstað og er enn meiri afli á leiðinni af kolmunnamiðunum, að því er segir í færslu á vef Síldarvinnslunnar.
Fyrst kom Beitir NK með 2.600 tonn síðastliðinn föstudag og hélt skipið á miðin vestur af Írlandi strax að löndun lokinni, en siglingin er um 850 sjómílur.
Kom í kjölfarið Vilhelm Þorsteinsson EA með 3.100 tonn og svo Börkur NK með 3.200 tonn. Greint er frá því að löndun úr Vilhelm lauk í nótt og að löndun úr Berki hefst í kvöld.
Þá eru þrjú norsk skip á leiðinni til Neskaupstaðar með kolmunna og er aflinn samanlagt um fimm þúsund tonn. Fyrsta af norsku skipunum er sagt væntanlegt miðvikudagskvöld.
Haft er eftir Hafþóri Eiríkssyni, verksmiðjustjóra í Neskaupstað, að kolmunninn sem nú fæst sé gott hráefni. „Hann skilar góðum afurðum, úrvalsmjöli og töluverðu lýsi.“
Gert er ráð fyrir að skipað verði 2.200 tonnum af fiskimjöli frá Neskaupstað síðar í vikunni.