Inga Sæland, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tilkynnti fyrirvaralaust í gær að hún hygðist leggja það til við ríkisstjórn að ráðherranefnd yrði skipuð um málefni fanga.
Reglur gera ráð fyrir að forsætisráðherra taki ákvörðun um skipun ráðherranefnda, með samþykki ríkisstjórnar, en ekki hefur náðst í Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra vegna málsins.
Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, staðfestir þetta í samtali við blaðamann, sem áður hafði fengið veður af hinni fyrirhuguðu ráðherranefnd.
Guðmundur segir ráðherra hafa tilkynnt þetta við styrkjaúthlutun í gær, en Guðmundur hélt þar erindi þar sem hann sagði frá stöðunni í fangelsismálum, fyrir hverja Afstaða væri að vinna, sem er fjölbreyttur hópur fanga og fjölskyldur þeirra, auk þess sem hann lagði áherslu á hversu samfélagslega mikilvægt og ábatasamt það væri að reyna að koma sem flestum föngum á beinu brautina í lífinu.
„Eftir þessa ræðu sagði Inga: „Ég var bara að ákveða það núna hér við þessa ræðu að ég ætla að leggja til við ríkisstjórnina að það verði sett á laggirnar ráðherranefnd um málefni fanga“.“
Guðmundur segir slíka nefnd vera einmitt það sem samtökin kalli eftir.
„Við viljum að yfirstjórn fangelsismála færist yfir í forsætisráðuneytið, því það vantar verkstjóra yfir fangelsismálin. Dómsmálaráðherra myndi áfram sinna rekstri fangelsanna og fangavarða og taka allar ákvarðanir um fanga og sinna refsingum þeirra, en það eru bara svo mörg önnur ráðuneyti sem koma að eins og menntamála-, heilbrigðis-, og félagsmálaráðuneyti, sem hafa brugðist og hafa ekkert verið að gera. Þar af leiðandi vantar verkstjóra til þess að kerfið virki.
Þess vegna vildi ég hafa svona nefnd sem tæki stefnumarkandi ákvarðanir í málaflokknum, réði verklagi og jafnvel einhvers konar úrskurðarnefnd um kærur fanga gagnvart dómsmálaráðuneytinu,“ segir Guðmundur.
Hann segir málið snúast um að úr fangelsunum útskrifist fólk sem sé hæft til þess að koma út í samfélagið, búið að læra eitthvað og nýta tímann, í stað þess að þaðan útskrifist öðru fremur öryrkjar.
„Ég verð svo oft bjartsýnn þegar það koma nýir stjórnendur og svo verður maður alltaf jafn reiður og sár þegar það gerist ekki neitt. Þannig hefur þetta í gegnum tíðina. En ég hef aldrei verið eins bjartsýnn og núna þegar ráðherra ákveður það að nú ætli hún að leggja til við ríkisstjórnina að skipa þessa nefnd og ég vona að það verði, því við þurfum á því að halda,“ segir Guðmundur vongóður um framhaldið.