Leggur til ráðherranefnd um málefni fanga

Inga Sæland hyggst leggja það til við ríkisstjórn að skipuð …
Inga Sæland hyggst leggja það til við ríkisstjórn að skipuð verði ráðherranefnd um málefni fanga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inga Sæ­land, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra, til­kynnti fyr­ir­vara­laust í gær að hún hygðist leggja það til við rík­is­stjórn að ráðherra­nefnd yrði skipuð um mál­efni fanga.

Regl­ur gera ráð fyr­ir að for­sæt­is­ráðherra taki ákvörðun um skip­un ráðherra­nefnda, með samþykki rík­is­stjórn­ar, en ekki hef­ur náðst í Kristrúnu Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra vegna máls­ins.

Hreifst af er­indi Af­stöðu og vill skipa nefnd

Guðmund­ur Ingi Þórodds­son formaður Af­stöðu, fé­lags fanga á Íslandi, staðfest­ir þetta í sam­tali við blaðamann, sem áður hafði fengið veður af hinni fyr­ir­huguðu ráðherra­nefnd.

Guðmund­ur seg­ir ráðherra hafa til­kynnt þetta við styrkja­út­hlut­un í gær, en Guðmund­ur hélt þar er­indi þar sem hann sagði frá stöðunni í fang­els­is­mál­um, fyr­ir hverja Afstaða væri að vinna, sem er fjöl­breytt­ur hóp­ur fanga og fjöl­skyld­ur þeirra, auk þess sem hann lagði áherslu á hversu sam­fé­lags­lega mik­il­vægt og ábata­samt það væri að reyna að koma sem flest­um föng­um á beinu braut­ina í líf­inu.

„Eft­ir þessa ræðu sagði Inga: „Ég var bara að ákveða það núna hér við þessa ræðu að ég ætla að leggja til við rík­is­stjórn­ina að það verði sett á lagg­irn­ar ráðherra­nefnd um mál­efni fanga“.“

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags Fanga, er vongóður um …
Guðmund­ur Ingi Þórodds­son, formaður Af­stöðu, fé­lags Fanga, er vongóður um að úr ræt­ist eft­ir und­ir­tekt­ir ráðherra. mbl.is/​Arnþór Birk­is­son

Aldrei verið bjart­sýnni

Guðmund­ur seg­ir slíka nefnd vera ein­mitt það sem sam­tök­in kalli eft­ir.

„Við vilj­um að yf­ir­stjórn fang­els­is­mála fær­ist yfir í for­sæt­is­ráðuneytið, því það vant­ar verk­stjóra yfir fang­els­is­mál­in. Dóms­málaráðherra myndi áfram sinna rekstri fang­els­anna og fanga­varða og taka all­ar ákv­arðanir um fanga og sinna refs­ing­um þeirra, en það eru bara svo mörg önn­ur ráðuneyti sem koma að eins og mennta­mála-, heil­brigðis-, og fé­lags­málaráðuneyti, sem hafa brugðist og hafa ekk­ert verið að gera. Þar af leiðandi vant­ar verk­stjóra til þess að kerfið virki.

Þess vegna vildi ég hafa svona nefnd sem tæki stefnu­mark­andi ákv­arðanir í mála­flokkn­um, réði verklagi og jafn­vel ein­hvers kon­ar úr­sk­urðar­nefnd um kær­ur fanga gagn­vart dóms­málaráðuneyt­inu,“ seg­ir Guðmund­ur.

Hann seg­ir málið snú­ast um að úr fang­els­un­um út­skrif­ist fólk sem sé hæft til þess að koma út í sam­fé­lagið, búið að læra eitt­hvað og nýta tím­ann, í stað þess að þaðan út­skrif­ist öðru frem­ur ör­yrkj­ar.

„Ég verð svo oft bjart­sýnn þegar það koma nýir stjórn­end­ur og svo verður maður alltaf jafn reiður og sár þegar það ger­ist ekki neitt. Þannig hef­ur þetta í gegn­um tíðina. En ég hef aldrei verið eins bjart­sýnn og núna þegar ráðherra ákveður það að nú ætli hún að leggja til við rík­is­stjórn­ina að skipa þessa nefnd og ég vona að það verði, því við þurf­um á því að halda,“ seg­ir Guðmund­ur vongóður um fram­haldið.

mbl.is