Þess verður örugglega ekki langt að bíða að Þórunn Þórðardóttir HF 300, nýjasta viðbótin við íslenska flotann, sanni gildi sitt og hjálpi vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar að dýpka skilning sinn á bæði smæstu og stærstu lífverunum sem finna má innan 200 mílna lögsögunnar, segir í sérstöku blaði helgað komu nýsmíðaðs hafrannsóknaskips til landsins sem fylgdi helgarblaði Morgunblaðsins.
Skipið, sem er búið nýjustu og fullkomnustu mælitækjum og myndavélum, getur m.a. siglt nærri því hljóðlaust á rafmagninu einu saman, þökk sé öflugri rafhlöðu. Öll hönnun skipsins miðar að því að hámarka skilvirkni og draga úr olíunotkun.
Rannsóknarstarfið heldur áfram, og sífellt bætist í þekkingarforðann. Með hverjum túrnum eykst skilningur Íslendinga á því hvernig skynsamlegast er að nýta auðlindirnar í hafinu, og eftir því sem vísindin eflast er hægt að áætla af meiri vissu hve mikið – eða hve lítið – er rétt að veiða úr hverjum stofni hverju sinni.
Á þessu grundvallast verðmætasköpun: að vita meira og meira. Og kannski má vona að með svona fullkomnu nýju hafrannsóknaskipi verði erfitt fyrir loðnuna að fela sig.
Blaðið um Þórunni Þórðardóttur HF má lesa hér.