Hönnunarsamningur fyrir Borgarlínuna undirritaður

Atli Björn Levy, forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínunnar, og Vilhjálmur Árni Ásgeirsson, …
Atli Björn Levy, forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínunnar, og Vilhjálmur Árni Ásgeirsson, verkefnastjóri hjá VSÓ Ráðgjöf, eftir undirritun samningsins. Ljósmynd/Betri samgöngur

Betri sam­göng­ur hafa und­ir­ritað samn­ing við VSÓ Ráðgjöf um hönn­un fyr­ir Borg­ar­lín­una sem nær yfir Suður­lands­braut og Lauga­veg að Hlemms­svæðinu meðtöldu.

Þetta seg­ir í til­kynn­ingu frá Betri sam­göng­um.

Um er að ræða um­fangs­mikið hönn­un­ar­verk­efni þar sem unnið verður bæði að for­hönn­un og verk­hönn­un fyr­ir leið Borg­ar­línu á þess­um kafla.

Hvað felst í hönn­un­ar­verk­efn­inu?

Kem­ur fram að með samn­ingn­um hefj­ist nú ver­könn­un, sem sé síðasta stig hönn­un­ar fyr­ir fram­kvæmd­ir, á götukafla sem svari til um fjórðungs heild­ar­lengd­ar fyrstu lotu Borg­ar­lín­unn­ar.

Fel­ur hönn­un­ar­verk­efnið í sér hönn­un gatna, gatna­móta og stíga fyr­ir alla sam­göngu­máta, þar með talið Borg­ar­lín­una, hjólandi og gang­andi um­ferð.

Einnig skipu­lag um­ferðar­stýr­ing­ar og ljós­a­stýr­ing­ar fyr­ir um­ferð allra sam­göngu­máta.

Sömu­leiðis hönn­un Borg­ar­línu­stöðva og aðliggj­andi svæða til að tryggja greiðan aðgang og gott skipu­lag.

Þá fel­ur hönn­un­ar­verk­efnið einnig í sér lýs­inga­hönn­un, blágræn­ar of­an­vatns­lausn­ir og um­hverf­is­mót­un sem og sam­ræm­ingu verk­efna í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög, veitu­fyr­ir­tæki og aðra aðila sem eiga hags­muna að gæta á svæðinu.

Hönnunin er fyrir Borgarlínuna og nær yfir Suðurlandsbraut og Laugaveg …
Hönn­un­in er fyr­ir Borg­ar­lín­una og nær yfir Suður­lands­braut og Lauga­veg að Hlemms­svæðinu meðtöldu. Ljós­mynd/​Betri sam­göng­ur

Áætlaður fjöldi vinnu­stunda 9.400 klst. 

Í til­kynn­ing­unni kem­ur fram að áætlaður fjöldi vinnu­stunda við hönn­un­ina sé 9.400 klukku­stund­ir og hljóðar samn­ing­ur­inn upp á 240 millj­ón­ir króna.

Þá er heild­ar­lengd verk­efn­is­ins um 3,7 kíló­metr­ar og er fjöldi nú­ver­andi gatna­móta inn­an svæðis­ins 17, þar af 8 ljós­a­stýrð.

Hönn­un­ar­svæðinu er skipt í fjóra leggi, fjór­ir verk­hlut­ar verða hannaðir í verk­hönn­un og þar af einn sömu­leiðis í for­hönn­un.

Útboð í áföng­um á ár­un­um 2025-2026

„Hönn­un­in verður unn­in í nánu sam­ráði við Vega­gerðina, Reykja­vík­ur­borg og aðra hags­munaaðila, með áherslu á að skapa ör­uggt um­hverfi með aukn­um lífs­gæðum, skil­virkt og sjálf­bært al­menn­ings­sam­göngu­kerfi.

Áætlað er að fram­kvæmd­ir fari síðan í útboð í áföng­um á ár­un­um 2025-2026 og að þær hefj­ist jafnt og þétt eft­ir því sem til­skil­in leyfi liggja fyr­ir.

Borg­ar­lín­unni er skipt í 6 lot­ur. Fyrsta lota nær frá Hamra­borg í Kópa­vogi að Kross­mýr­ar­torgi í Reykja­vík og er 14,5 km. Áætlað er að hún verði full­bú­in árið 2031 en fyrstu fram­kvæmd­ir hóf­ust á Kárs­nesi í Kópa­vogi í janú­ar 2025 við gerð land­fyll­inga fyr­ir Foss­vogs­brúl,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Áætlað er að fyrsta lota Borgarlínunnar verði tilbúin árið 2031.
Áætlað er að fyrsta lota Borg­ar­lín­unn­ar verði til­bú­in árið 2031. Teikn­ing/​Betri sam­göng­ur
mbl.is