Einar Sigurðsson, stjórnarformaður Ísfélags hf., telur ljóst að hækkun veiðigjalda muni koma niður á fjárfestingu fyrirtækja í sjávarútvegi. Afleiðing þess kunni að verða lakari samkeppnisskilyrði, sem leiði af sér aukinn útflutning af óunnum fiski sem skili minni tekjum af sjávarútvegi til ríkis og sveitarfélaga.
Þetta sagði hann í samtali við Eyjafréttir í vikunni.
Þar gagnrýndi hann að breytingar á aflaverðmætum til grundvallar veiðigjalds hér á landi skyldu miða við uppboðsverð í Noregi.
„Að taka tölur í öðrum löndum og færa á Ísland. Við erum með kerfi hér þar sem veiðar og vinnsla eru á sömu hendi. Það hefur verið okkar gæfa, og skilað sér í að mikið af fiski er unnið hér en mun stærri hluti er fluttur úr landi óunninn t.d. í Noregi. Þar er fiskvinnslan illa stödd og mun minna fjárfest þar í vinnslum. Ef vinnslan á að borga sig og fyrirtækin fjárfesta í þeim gefur það auga leið að þær fjárfestingar verða að skila góðri afkomu.
Það er ekkert mat gert á því hvaða áhrif þetta hefur. Stærstur hluti hækkunarinnar er greiddur af fyrirtækjum úti á landi og það mun hafa áhrif og veikja m.a. fiskvinnsluna. Draga úr fjárfestingum og hugsanlega fer meira óunnið úr landi, það minnkar bæði skattspor og útsvar sveitarfélaga,“ sagði hann.