Ámælisverð vinnubrögð að mati minnihluta

Þingmenn minnihlutans í atvinnuveganefnd segjast mótmæla harðlega framlagningu frumvarps um …
Þingmenn minnihlutans í atvinnuveganefnd segjast mótmæla harðlega framlagningu frumvarps um afturköllun kvótasetningu grásleppu. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins, Miðflokks­ins og áheyrna­full­trúi Fram­sókn­ar­flokks­ins í at­vinnu­vega­nefnd gera al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við frum­varp meiri­hluta at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is um að aft­ur­kalla kvóta­setn­ingu grá­sleppu sem samþykkt var á síðasta ári. Segja þeir það illa und­ir­búið og í trássi við venju um að eiga sam­ráð við hagaðila eða mat á áhrif­um.

„Und­ir­ritaðir leggj­ast ein­dregið gegn frum­varpi meiri­hluta at­vinnu­vega­nefnd­ar um breyt­ing­ar á lög­um um veiðar í fisk­veiðiland­helgi Íslands og lög­um um stjórn fisk­veiða. Frum­varpið er hroðvirkn­is­lega unnið og stríðir gegn öll­um regl­um og venj­um um vandaða laga­setn­ingu,“ seg­ir í sér­stakri bók­un minni­hluta at­vinnu­vega­nefnd­ar.

Kvóta­setn­ing grá­sleppu átti sér nokkuð lang­an aðdrag­anda og má rekja aft­ur til árs­ins 2020 þegar þáver­andi sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, Kristján Þór Júlí­us­son, lýsti áform­um um slíka laga­setn­ingu. Vegna máls­ins und­ir­rituðu 244 grá­sleppu­sjó­menn, sem þá var 54% allra grá­sleppu­veiðileyf­is­hafa, yf­ir­lýs­ingu þar sem lýst var full­um stuðningi við kvóta­setn­ingu teg­und­ar­inn­ar.

Í bók­un þing­manna minni­hlut­ans segj­ast þeir telja „ámæl­is­vert að nefnd­in leggi fram frum­varp sem er jafn íþyngj­andi í garð borg­ar­anna og hér um ræðir án þess að lagst sé í neina und­ir­bún­ings­vinnu, s.s. sam­ráðs við hagaðila, mat á áhrif­um eða sjón­ar­miða sér­fræðinga aflað. Vinnu­brögð nefnd­ar­inn­ar í þessu máli eru henni og Alþingi ekki til sóma og mót­mæla und­ir­ritaðir fram­lagn­ingu máls­ins harðlega.“

Skapi rík­inu bóta­skyldu

Þing­menn­irn­ir segja að kvóta­setn­ing grá­sleppu hafi stuðlað að vernd­un og hag­kvæmri nýt­ingu nytja­stofna og at­vinnu­upp­bygg­ingu á lands­byggðinni. „Þann ár­ang­ur á nú að gera að engu, auk þess að svipta grá­sleppu­sjó­menn þeim at­vinnu­rétt­ind­um sem þeim voru tryggð með lög­um nr. 102/​2024. Þetta hyggst meiri­hluti at­vinnu­vega­nefnd­ar gera í trássi við ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar um friðhelgi eign­ar­rétt­ar­ins og hinn­ar stjórn­skipu­legu meðal­hófs­reglu.“

Benda þeir á að það sé óum­deilt að at­vinnu­rétt­indi njóti vernd­ar stjórn­ar­skrár og að það hafi verið staðfest í dóm­um Hæsta­rétt­ar Íslands.

„Þrátt fyr­ir það legg­ur meiri­hluti at­vinnu­vega­nefnd­ar til að grá­sleppu­sjó­menn verði svipt­ir þess­um rétt­ind­um án þess að minnst sé á fyr­ir­sjá­an­lega skaðabóta­skyldu ís­lenska rík­is­ins verði frum­varpið að lög­um. Er í grein­ar­gerð frum­varps­ins að engu vikið að því hvernig meðal­hófs er gætt og verður ekki annað ráðið en að meiri­hluti nefnd­ar­inn­ar vaði í þeirri villu að svipt­ing at­vinnu­rétt­inda líkt og mælt fyr­ir um í frum­varp­inu geti átt sér stað án þess að baka rík­inu skaðabóta­skyldu,“ seg­ir í bók­un­inni.

mbl.is