Hókus pókus hjá ráðherrunum

Video Player is loading.
Current Time 0:00
Duration 4:46
Loaded: 0.00%
Stream Type LIVE
Remaining Time 4:46
 
1x
  • Chapters
  • descriptions off, selected
  • subtitles off, selected
  • default, selected

Fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi seg­ir að ráðherra beita ódýr­um brell­um til þess að sann­færa fólk um að tvö­föld­un á veiðigjöld­um muni ekki hafa áhrif á út­vegs­fyr­ir­tæk­in í land­inu.

Þetta kem­ur fram í viðtali við Heiðrúnu Lind Marteins­dótt­ur í Spurs­mál­um Morg­un­blaðsins.

Þar seg­ir hún að stór­fyr­ir­tæk­in í grein­inni muni efa­laust standa af sér þessa stór­auknu gjald­töku. Hið sama gildi ekki um minni fyr­ir­tæk­in sem muni leggja upp laup­ana og samþjöpp­un aukast.

Ódýr póli­tík

Seg­ir Heiðrún nú­ver­andi rík­is­stjórn stunda ódýra póli­tík þar sem ákveðið sé að gera ein­fald­lega eitt­hvað til þess að skora ódýr póli­tísk stig.

Sam­talið um þetta má sjá í spil­ar­an­um hér að ofan en það er einnig rakið í text­an­um hér að neðan.

Hókus pókus áhrifamat

„Mér finnst það rosa­lega ódýrt þegar ráðherra kem­ur fram og seg­ir að við séum með ein­hvern hræðslu­áróður og að ekk­ert af þessu muni ger­ast og að áhrif­in verði bara eng­in. Þá verður ráðherra að rök­styðja það og það er áhrifamat sem hef­ur ekki farið fram. Það er eng­inn sem hef­ur séð það hókus pókus áhrifamat að áhrif­in verði eng­in.“

Ja, bíddu nú við. Þau segja hér í til­kynn­ing­unni sem maður sér ástæðu til að taka mark á, þetta kem­ur frá stjórn­völd­um: Eng­in breyt­ing verður á út­reikn­ingi veiðigjalds og mun út­gerðin áfram halda 67% af hagnaði veiðanna en mun greiða 33% af hagnaðinum fyr­ir af­not­in af auðlind­inni.

Ef eng­in breyt­ing verður á hlut­un­um og menn halda áfram 67% af hagnaðinum, þá geta menn nú varla kvartað?

Tala verður tand­ur­hreina ís­lensku

„Já, þetta er, maður verður að tala tand­ur­hreina ís­lensku. Þetta er bara ein­hver della. Því í fyrsta lagi er það ekki þannig að ríkið taki bara þriðjung og út­gerðin haldi eft­ir tveim­ur þriðju af hagnaði fisk­veiða. Virk­ur tekju­skatt­ur af fisk­veiðum er 58%. Ríkið tek­ur tekju­skatt, það tek­ur fjár­magn­s­tekju­skatt af arðgreiðslum og svo tek­ur það veiðigjaldið. Þannig að 58% renna til rík­is­ins eins og þetta er í dag og þá eru 42% eft­ir í fyr­ir­tæk­inu til þess að fjár­festa, til þess að greiða út arð og svo fram­veg­is,“ seg­ir Heiðrún Lind.

Og hún bæt­ir við:

„Og það að segja að við ætl­um að tvö­falda veiðigjaldið en ótrú­legt en satt þá breyt­ir það engu, við erum bara að taka þriðjung. Það get­ur vel verið að þú get­ir sagt, jú, jú þetta er bara þriðjung­ur af ein­hverri til­bú­inni af­komu þar sem við erum að miða við eitt­hvað allt annað kerfi í Nor­egi, sund­urslitn­ar veiðar og vinnslu, markaðsaðstæður sem Norðmenn búa við eða geng­is­breyt­ing­ar í Nor­egi sem hafa eng­in áhrif á rekst­ur­inn hér á landi er allt í einu farið að hafa áhrif á okk­ur.“

Viðtalið við Heiðrúnu má sjá og heyra í heild sinni í spil­ar­an­um hér að neðan:

 

mbl.is