Sérstakt nám vegna björgunarskipa

Björgunarskipið Jóhannes Briem.
Björgunarskipið Jóhannes Briem. Ljósmynd/Landsbjörg

Stefnt er að því að gera sér­hæft nám í skip­stjórn og vél­gæslu björg­un­ar­skipa í þeim til­gangi að mæta mönn­un­ar­vanda á björg­un­ar­skip­um. Námið mun ekki nýt­ast til að öðlast rétt­indi í sigl­ingu annarra sjóf­ara.

Þetta kem­ur fram í lýs­ingu vegna áforma rík­is­stjórn­ar­inn­ar um frum­varp til laga um breyt­ingu á lög­um um áhafn­ir skipa sem birt hef­ur verið í sam­ráðsgátt stjórn­valda. Þar seg­ir að til­gang­ur­inn með breyt­ing­un­um sé að „bregðast við vanda Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar við mönn­um nýrra björg­un­ar­skipa.“

Innviðaráðuneytið áform­ar að leggja til að í lög­um verði heim­ild fyr­ir ráðherra til að setja í reglu­gerð nán­ari ákvæði um mennt­un og þjálf­un á veg­um Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar og Slysa­varna­skóla sjó­manna til skip­stjórn­ar og vél­gæslu á björg­un­ar­skip­um. Jafn­framt að ráðherra geti í reglu­gerð sett ákvæði um lág­marks­rétt­indi til skip­stjórn­ar og vél­gæslu á björg­un­ar­skip­um Slysa­varn­ar­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar sem gegna sér­hæfðu hlut­verki.

Gert er ráð fyr­ir að nám­skrá og listi yfir kenn­ara verði háð samþykki Sam­göngu­stofu og að þeirri stofn­un verði falið eft­ir­lit með nám­inu.

Jafn­framt er lagt upp með að námið gildi ein­göngu til starfa um borð í skip­um Slysa­varn­ar­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar og að hvorki námið né sigl­inga­tími í fram­haldi af því á skip­um fé­lags­ins nýt­ist til að öðlast önn­ur rétt­indi.

mbl.is