Stefnt er að því að gera sérhæft nám í skipstjórn og vélgæslu björgunarskipa í þeim tilgangi að mæta mönnunarvanda á björgunarskipum. Námið mun ekki nýtast til að öðlast réttindi í siglingu annarra sjófara.
Þetta kemur fram í lýsingu vegna áforma ríkisstjórnarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um áhafnir skipa sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda. Þar segir að tilgangurinn með breytingunum sé að „bregðast við vanda Slysavarnafélagsins Landsbjargar við mönnum nýrra björgunarskipa.“
Innviðaráðuneytið áformar að leggja til að í lögum verði heimild fyrir ráðherra til að setja í reglugerð nánari ákvæði um menntun og þjálfun á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Slysavarnaskóla sjómanna til skipstjórnar og vélgæslu á björgunarskipum. Jafnframt að ráðherra geti í reglugerð sett ákvæði um lágmarksréttindi til skipstjórnar og vélgæslu á björgunarskipum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem gegna sérhæfðu hlutverki.
Gert er ráð fyrir að námskrá og listi yfir kennara verði háð samþykki Samgöngustofu og að þeirri stofnun verði falið eftirlit með náminu.
Jafnframt er lagt upp með að námið gildi eingöngu til starfa um borð í skipum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og að hvorki námið né siglingatími í framhaldi af því á skipum félagsins nýtist til að öðlast önnur réttindi.