Grásleppa veiðanleg í botnvörpu

Afli Góð aflabrögð á grásleppuvertíð ársins eru ekki talin vísbending …
Afli Góð aflabrögð á grásleppuvertíð ársins eru ekki talin vísbending um gott ástand stofnsins að mati vísindamanna Hafrannsóknastofnunar. Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson

Hegðun­ar­mynst­ur og dreif­ing grá­sleppu á Íslands­miðum ger­ir mögu­legt að veiða teg­und­ina í nægi­legu magni með botn­vörpu til að hægt sé að byggja stofn­mat teg­und­ar­inn­ar meðal ann­ars á niður­stöðum úr tog­ar­aralli. Þetta er mat vís­inda­manna Haf­rann­sókna­stofn­un­ar.

Gráleppu­sjó­menn hafa kvartað sár­an und­an lít­illi ráðgjöf stofn­un­ar­inn­ar um há­marks­afla á vertíðinni 2025, en ráðgjöf­in nam aðeins 2.760 tonn­um sem er 32% minni há­marks­afli en í ráðgjöf stofn­un­ar­inn­ar fyr­ir síðasta ár.

Hafa grá­sleppu­sjó­menn m.a. haldið því fram að ekki sé hægt að taka ráðgjöf­ina al­var­lega þar sem hún bygg­ist á troll­veiðum en grá­sleppa sé upp­sjáv­ar­fisk­ur sem veidd­ur er í net. Jafn­framt benda grá­sleppu­sjó­menn á að mjög góð veiði hef­ur verið á miðunum þessa grá­sleppu­vertíð.

Leitað var til Guðmund­ar J. Óskars­son­ar, sviðsstjóra upp­sjáv­ar­sviðs Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, og James Kenn­e­dy fiski­fræðings hjá stofn­un­inni og þeir innt­ir álits á gagn­rýni grá­sleppu­sjó­manna.

„Vissu­lega veiðist grá­sleppa í net grá­sleppu­sjó­manna jafn­an grynnra en tog­stöðvarn­ar okk­ar voru á í stofn­mæl­ingu botn­fiska að vori (marsrall). Hins veg­ar sýna niður­stöður mæl­ing­anna að grá­sleppu er að finna á öllu land­grunn­inu – síst suðaust­an lands – og til viðbót­ar stund­ar grá­sleppa lóðrétt far frá yf­ir­borði sjáv­ar al­veg niður á botn og synd­ir ná­lægt botni í átt að strönd­um sam­kvæmt rann­sókn­um okk­ar með raf­einda­merkj­um, sem ger­ir hana veiðan­lega í botn­vörpu,“ seg­ir í svari þeirra.

Gagn­leg vísi­tala

Þá hafi verið gerð skýrsla 2021 þar sem rýnt var í aðferðafræði við stofn­mat grá­sleppu, eru þar rakt­ar þær tím­araðir sem stofn­un­in hafi úr að velja við gerð mats­ins en þær fást úr marsralli, haustr­alli, þorska­net­aralli og skráðum afla á sókn­arein­ingu í grá­sleppu­veiðum.

„Líkt og kem­ur fram í skýrsl­unni var niðurstaðan að veiði grá­sleppu í marsralli (stofn­mæl­ingu botn­fiska að vori) gef­ur gagn­lega vísi­tölu um stærð stofns­ins og veiðiráðgjöf bæri að miðast við hana. Vísi­tal­an kem­ur frá tog­stöðvum allt í kring­um landið,“ seg­ir í svar­inu.

Grásleppuveiðarnar gengu vel.
Grá­sleppu­veiðarn­ar gengu vel. mbl.is/​Lín­ey

Afla­brögð gefi ekki rétta mynd

Telja þeir magn grá­sleppu í marsralli end­ur­spegla stærð hrygn­ing­ar­stofns grá­sleppu. Þá sýna gögn stofn­un­ar­inn­ar fylgni milli vísi­tölu frá marsrall­inu og afla­bragða sjó­manna sem styðji við mat vís­inda­manna. Afla­brögð sjó­manna gefa þó ekki ein og sér endi­lega rétta mynd af stöðu fiski­stofna.

„Það hef­ur verið sýnt fram á það með marga nytja­stofna hér­lend­is og er­lend­is, að afli á sókn­arein­ingu er ekki ákjós­an­leg­ur mæli­kv­arði á stærð stofns með til­liti til stofn­mats vegna fjöl­margra þátta sem hafa þar áhrif á, svo sem þróun og beit­ing veiðarfæra, auk­in þekk­ing og reynsla sjó­manna og veiðiálag.

Við telj­um að það eigi við í ár, þ.e.a.s. að gögn frá yf­ir­stand­andi vertíð um mik­inn afla á sókn­arein­ingu (þ.e. afli í net) sé ekki að end­ur­spegla stærð stofns­ins. Ástæðan er lítið veiðiálag þar sem meðal­fjöldi dreg­inna neta úr sjó er sá minnsti í 18 ár, en afli á sókn­arein­ingu er hærri eft­ir því sem sókn­in er minni. Af þess­um ástæðum vilj­um við nota staðlaðar aðferðir milli ára við stofn­mat þegar það er mögu­legt líkt og við ger­um í stofn­mæl­ingu botn­fiska að vori og flest­um öðrum stofn­mats­leiðöngr­um. Miðað við vísi­tölu stofn­mats­mæl­ing­ar botn­fiska að vori árið 2025 er grá­sleppu­stofn­inn ná­lægt sögu­legu lág­marki, sem skýr­ir lága veiðiráðgjöf.“

Óvissa um far

Við spurn­ingu um það hvort áreiðan­legri gögn um stöðu grá­sleppu­stofn­ins myndu fást við beit­ingu annarra veiðarfæra en botntrolls svara þeir Guðmund­ur og James:

„Við höf­um vissu­lega rætt hvort aðrar aðferðir eða tím­araðir gætu mögu­lega verið betri í að meta stærð grá­sleppu­stofns­ins. Einn leiðang­ur sem hef­ur verið skoðaður í því sam­hengi er svo­kallaður mak­ríl­leiðang­ur í júlí sem nær yfir stórt svæði Norðaust­ur-Atlants­hafs­ins. Þar erum við að fá hrogn­kelsi í flest­um yf­ir­borðstog­um líkt og skýrsl­ur okk­ar hafa getið um, en hins veg­ar er óvissa um dreif­ingu, far og stofn­gerð þess, þ.e.a.s. hvaða hrygn­ing­ar­stofni þau til­heyri – t.d. frá Íslandi, Græn­landi, Nor­egi, Dan­mörku – og hvernig far þeirra er. Við get­um því ekki notað þá tímaröð alla­vega ennþá til að ákv­arða vísi­tölu um stærð grá­sleppu­stofns­ins við Ísland.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: