Þeir sem fylgst hafa með löndunartölum strandveiðibáta á gagnasíðum Fiskistofu hafa eflaust klórað sér í hausnum undanfarið þar sem tölurnar sem þar birtast virðast ekki standast skoðun. Fiskistofa upplýsir að villa hafi verið í kerfum stofnunarinnar.
Er blaðamaður rýndi í tölur um alfa strandveiðibáta í morgun sást að stakur bátur hafði náð að landa heilum 1.593 kílóum umfram heimilaðan heildarafla. Vakti það athygli að slíkt væri mögulegt þar sem flestir bátar hafa aðeins náð tveimur veiðidögum í vikunni sökum veðurs.
Samkvæmt skráningu Fiskistofu hefur báturinn landað fjórum sinnum, tvisvar 5. maí og tvisvar 6. maí. Virðist sem um tvítalningu að ræða en þrátt fyrir slíkt nemur tvítalinn umframafli bátsins 294 kílóum en ekki 1.593 eins og skráð er.
Þá má sjá þrjá báta landa meira en tonni af þorski í róðri en enginn, eða mjög lítill, umframafli skráður þrátt fyrir að hámarksafli sé 650 þorskígildiskíló í róðri.
Þorksígilidisstuðullinn fyrir þorsk er 1 (einn) og er því ljóst að eitthvað bogið sé við að bátur geti skráð 1.360 kíló af þorski í stakri löndun og aðeins 60 séu skráð umframafli.
Meðal heildarafli strandveiðibáta í róðri er skráð í kerfi Fiskistofu 573 þorskígildikíló, en miðað við skráðan heildarafla eftir tegundum og gildandi þorskígildisstuðlum er meðal heildarafli strandveiðibátanna 679 þorskígildi í róðri. Enda hefur Fiskistofa sjálf talið fram 16,6 tonn af umframafla. Óvíst er þó hvort það sé rétt talið.
Leitað var skýringa Fiskistofu á þessum augljósu göllum. „Það er villa í kerfunum sem verið er að lagfæra, vonandi tekst það fljótlega,“ segir í svari stofnunarinnar.