Þegar í ljós kom að Sovétmenn voru að stafla upp kjarnavopnum á Kúbu, í tæplega 700 kílómetra fjarlægð frá Flórídaskaganum, fór allt á annan endann í stjórnkerfi Bandaríkjanna. Engin uppskrift var til að því hvernig bregðast skyldi við og áhrifamenn innan Bandaríkjahers lögðu til að ráðist yrði til atlögu við eyjuna í suðri með það að markmiði að gjöreyða vopnabúri og hernaðarmætti sem þar hafði verið komið upp.
Síðari tíma frásagnir staðfesta að lykilmenn í ríkisstjórn Kennedys forseta kvöddu fjölskyldur sínar að morgni þessa dags í október 1962, í fullkominni óvissu um hvort þeir myndu líta aðra sólarupprás. Þeir vissu sem var að heimurinn rambaði á barmi kjarnorkustyrjaldar sem bundið gæti enda á það samfélag sem þeir þekktu þá.
Nú eru liðin ríflega 60 ár frá þessum hádramatísku atburðum og aðalleikararnir horfnir fyrir löngu af sviðinu. Kennedy raunar aðeins ári síðar þegar hann var myrtur í Dallas í nóvember 1963. Nikita Sergejevitsj Khrústsjov var sviptur völdum í Sovétríkjunum tveimur árum eftir Kúbudeiluna en hann lifði þó sjö ár eftir það.
En þessir atburðir eru enn í minni margra sem nú lifa. Aðrir geta fræðst um þessa heimssögulegu atburði og þar þjónar betur en flestar aðrar bók breska sagnfræðingsins Max Hastings, sem kom út í árslok 2022 og í íslenskri þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar ári síðar. Bókin nefnist einfaldlega Kúbudeilan 1962 og á tæplega 550 síðum rekur hann atburðina og setur í samhengi sem þjónar okkar samtíma.
Þessi bók er viðfangsefni Bókaklúbbs Spursmála nú í maímánuði en klúbburinn hóf göngu sína í apríl og hafa viðtökur verið framar vonum.
Einhverjir kunna að spyrja af hverju þessi bók verður fyrir valinu á vettvangi þar sem ætlunin er að fræðast um stjórnmál og samfélag dagsins í dag. Svarið er í raun ofureinfalt. Atburðirnir í október 1962 segja sögu sem læra má af. Og það sem meira er: margt af því sem við sjáum gerast fyrir framan nefið á okkur þessa dagana ber óþægileg líkindi við það sem heimsbyggðin horfði upp á þessa daga á fyrri hluta sjöunda áratugarins.
Það bendir Hastings sjálfur á í inngangi að bókinni. Í lok hans segir höfundur: „Í dag, í kjölfar óhugnanlegra nýrra árása og yfirgangs Rússlands, hefur þessi saga átakanlega skírskotun. Hún sýnir hætturnar sem stafa af stórveldum sem voga sér á ystu nöf hyldýpis sem þeim tókst árið 1962 til allrar hamingju að forða sér frá.“
Hér er hægt að tryggja sér eintak af bókinni á sérstökum afsláttarkjörum.
En hann bætir við: „Heimurinn getur ekki treyst því að við verðum ávallt svo gæfusöm að eiga þjóðarleiðtoga sem sýna sambærilega visku.“
Þá visku er augljóslega ekki að finna í Pútín Rússlands, rétt eins og Hastings bendir á. En það eru fleiri stórir leikendur á sviðinu. Donald Trump í Hvíta húsinu sem kallar eftir friði en virðist einnig tilbúinn að hnykla vöðvana og hefur raunar gert það gagnvart samherjum sínum í NATO vítt og breitt, Xi Jinping sem talar mjúkmáll en stefnir á innrás í Taívan, brjálæðingurinn í Pyongyang sem sent hefur á annan tug þúsunda ungra samlanda sinna til sláturhússins í austurhluta Úkraínu og heldur uppi stöðugum hótunum í garð Suður-Kóreu, Japans og annarra lýðræðisþjóða í Austurlöndum fjær. Þá eru ótaldir aðrir boðberar ofbeldis og yfirgangs, menn á borð við æðsta klerkinn í Íran, ný hryðjuverkastjórnvöld í Sýrlandi og þannig mætti áfram telja.
Því miður verður í því sambandi ekki komist hjá því að nefna leiðtoga Indlands og Pakistans. Snerrur þeirra í millum í Kasmírhéraði gætu hleypt af stað atburðarás sem leiddi til stóratburðar. Bæði ríkin búa yfir kjarnorkuvopnum.
Og það er kannski stóri lærdómurinn af Kúbudeilunni. Leiðtogar vega og meta stöðu mála og taka jafnvel afdrifaríkar ákvarðanir án þess að hafa fullkomna yfirsýn. Sovétmenn vissu til dæmis að tæknilegir annmarkar á kjarnorkuvopnabúri þeirra voru slíkir að ef þeir ætluðu sér að hafa yfirhöndina í styrjöld sem byggðist á slíkum vopnum yrðu þeir að vera fyrri til. Ef flaugar Bandaríkjamanna yrðu sendar af stað væri of seint í rassinn gripið að bregðast við. Hvers konar ákvarðanir og mat kallar slík staða á? Að minnsta kosti er ljóst að það að reikna skakkt getur haft geigvænlegar afleiðingar.
Eitt af því sem gerir Kúbudeiluna sérlega áhugaverða er sú staðreynd að þar tókust á stórir karakterar. John F. Kennedy er öllum kunnur, sú mynd sem Hastings dregur upp af Khrústsjov er í meira lagi áhugaverð. Fidel Castro heillaði alla heimsbyggðina, meira að segja andstæðinga sína, upp úr skónum og allt í kring eru fleiri áhugaverðir menn. Bobby, bróðir forsetans, er einn þeirra en einnig menn á borð við Georgy Bolshakov, njósnarann alræmda, og sendiherrann Aleksandr Alekseev.
Bókaklúbbur Spursmála hóf göngu sína í apríl síðastliðnum. Þar eru teknar fyrir bækur sem efla skilning okkar á stjórnmálum og samfélagi í víðum skilningi.
Aðild að klúbbnum er félögum að kostnaðarlausu. Það er vegna öflugra bakhjarla sem það er unnt.
Fyrirtækin Brim, Kerecis, Penninn og Samsung leggja klúbbnum lið og stuðla með því að auknum bóklestri og fræðslu sem munar um.