Vill greina áhrif af vinnsluskyldu

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Hanna Katrín Friðriks­son at­vinnu­vegaráðherra seg­ir fulla ástæðu til þess að fara í grein­ing­ar­vinnu um það hvaða áhrif það hefði á rekst­ur fyr­ir­tækja og byggðafestu að afli af ákveðnum fisk­teg­und­um sem flutt­ur sé óunn­inn úr landi á er­lenda markaði sé reiknaður með álagi.

Ey­dís Ásbjörns­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, efndi til sér­stakr­ar umræðu um inn­lenda vinnslu­skylda á sjáv­ar­afla á Alþingi í dag. Ey­dís hef­ur áður gert vinnslu­skylda og út­flutn­ings­álag að umræðuefni á þing­inu, en fyrr í mánuðinum sagði hún að skoða þyrfti hvort setja ætti slíka skyldu eða álag á sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki sem grípa til hagræðing­araðgerða vegna auk­inna veiðigjalda. 

Hugs­an­lega í bága við EES-samn­ing

Ey­dís seg­ir í ræðu sinni að ís­lenskt sam­fé­lag hafi orðið af yfir 50 millj­örðum króna á síðasta ára­tug með því að flytja út nokk­ur hundruð þúsund tonn af óunn­um fiski. Hún spurði því at­vinnu­vegaráðherra hvort til greina kæmi að setja á inn­lenda vinnslu­skyldu á ís­lensk­an sjáv­ar­afla. 

Hanna Katrín bend­ir á það að ýms­ar ástæður væru fyr­ir því að óunn­inn fisk­ur væri flutt­ur úr landi. 

„Yfir sum­arið fara starfs­menn í fisk­vinnsl­um í sum­ar­frí og þá minnk­ar vinnslu­geta og eins geta komið afla­skot þar sem veidd­ur afli er meiri en vinnsl­ur ráða við.“

Einnig bend­ir Hanna Katrín á það að EES-samn­ing­ur­inn gæti verið brot­inn ef inn­lend vinnslu­skylda yrði leidd í lög enda gæti það falið í sér hindr­un á frjálsu flæði á vör­um. 

Ákvæðinu sein­ast beitt 2013

Í lög­um um stjórn fisk­veiða er þó ákvæði sem að heim­il­ar ráðherra að ákveða að afli af ákveðnum fisk­teg­und­um sem flutt­ur sé óunn­inn úr landi á er­lenda markaði sé reiknaður með álagi. 

Ákvæði þessu var sein­ast beitt 2013 en Hæstirétt­ur hef­ur að sögn Hönnu Katrín­ar staðfest að það brjóti ekki í bága við stjórn­ar­skrá eða EES-samn­ing­inn. 

Hanna Katrín seg­ir í ræðu sinni að grein­ing­ar og út­tekt­ir varðandi þetta efni séu nú orðnar meira en fimm ára gaml­ar. Hún telji því tíma­bært að taka stöðuna á nýju og skoða hvort ný gögn breyti stöðunni. 

Sam­fylk­ing­in tali fyr­ir sósí­al­isma

Fleiri þing­menn tóku til máls í þess­ari umræðu en þeirra á meðal eru Jens Garðar Helga­son, vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, og Karl Gauti Hjalta­son, þingmaður Miðflokks­ins. 

Jens Garðar seg­ir í ræðu sinni að það sé ánægju­legt að þing­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar hafi loks­ins áhuga á verðmæta­sköp­un. 

„Ég tel að það sé ekki hægt að binda grein­ina þannig niður að tak­marka með ein­hverj­um hætti henn­ar mögu­leika til þess að nýta þær leiðir inn á markaðinn sem til er, það að setja á vinnslu­skyldu væri ekki góð leið. Ég held það sé meira fyr­ir okk­ur að reyna að búa til hvata til þess að vinna frek­ar fisk­inn hér heima,“ sagði Jens Garðar í ræðustól Alþing­is. 

Karl Gauti seg­ir að í þessu máli tak­ist á sjón­ar­mið í rík­is­stjórn­inni hjá Viðreisn og Sam­fylk­ing­unni. Hann seg­ir að Sam­fylk­ing­in tali fyr­ir sósí­al­isma á meðan Viðreisn tali fyr­ir neyt­enda­vernd.

„Grunn­atriðið í þessu er auðvitað að skapa fyr­ir­tækj­un­um sem eru í sjáv­ar­út­vegi viðun­andi skil­yrði til þess að efla sína verðmæta­sköp­un, vél­væðingu og ný­sköp­un og að geta unnið afl­ann hér heima á hag­kvæm­ast­an hátt þannig að ekki þurfi að flytja hann út óunn­inn til landa sem geta boðið lægri laun,“ sagði Karl Gauti í ræðu sinni. 

mbl.is