Mannréttindi hverfi ekki við afplánun

Sigríður Ella Jónsdóttir og Tinna Eyberg Örlygsdóttir eru verkefnastjórar Aðstoðar …
Sigríður Ella Jónsdóttir og Tinna Eyberg Örlygsdóttir eru verkefnastjórar Aðstoðar eftir afplánun hjá Rauða Krossinum. Þær kynntu verkefnið á afmælisráðstefnu Afstöðu, fé­lags fanga um bætt fang­els­is­mál, í gær. Ljósmynd/Andri Þeyr Andrason

„Maður miss­ir ekki mann­rétt­indi sín þó maður sé í afplán­un,“ seg­ir Sig­ríður Ella Jóns­dótt­ir. Sig­ríður og Tinna Ey­berg Örlygs­dótt­ir eru verk­efna­stjór­ar Aðstoðar eft­ir afplán­un hjá Rauða Kross­in­um. Þær kynntu verk­efnið á af­mæl­is­ráðstefnu Af­stöðu, fé­lags fanga um bætt fang­els­is­mál, í gær.

Segja þær verk­efnið byggja á virðingu, von, lýðheilsu, mann­rétt­ind­um og fé­lags­leg­um rétt­ind­um og aðal­mark­mið þess sé að draga úr end­ur­komu í fang­els­in.

Verk­efnið snú­ist um að veita ör­yggi og stuðning og sé mjög ein­stak­lings­miðað.

„Ekki gerð krafa um ed­rú­mennsku“

Aðstoð eft­ir afplán­un er aðgengi­leg öll­um sem hafa afplánað dóm og er veitt að ósk og upp­lýstu samþykki viðkom­andi, sem get­ur hætt hvenær sem er. Þá er ekki gerð krafa um ed­rú­mennsku held­ur ein­ung­is góð sam­skipti.

Verk­efnið hófst í lok árs 2018 með svo­kölluðum ein­stak­lings­stuðningi. Einn sjálf­boðaliði styður þá við bakið á ein­um þátt­tak­anda og hefst stuðning­ur­inn um tveim­ur til þrem­ur mánuðum áður en þátt­tak­and­inn lýk­ur afplán­un.

Stuðning­ur­inn er í boði fyr­ir viðkom­andi í tólf til fjór­tán mánuði og hitt­ir hann sjálf­boðaliðann einu sinni í viku í um það bil klukku­tíma í senn.

Sjálf­boðaliðar fara á nám­skeið áður en þeir geta hafið störf, eru bundn­ir full­um trúnaði og skuld­binda sig í eitt ár.

Konu­kvöld á Hólms­heiði

Kon­ur hafa sótt tölu­vert minna um í ein­stak­lings­verk­efnið en karl­ar og var því farið af stað með konu­kvöld á Hólms­heiði í haust.

„Alla þriðju­daga fer mjög öfl­ug­ur hóp­ur sjálf­boðaliða inn á Hólms­heiði og eru í þrjá klukku­tíma í senn að bjóða upp á alls kon­ar iðju. Það hef­ur verið bakað, dansað, klipp­ing­ar og dek­ur og ým­is­legt,“ seg­ir Tinna.

Þetta segja þær mikla fram­för vegna þess að þarna sé hægt að mæta kon­um í gæslu­v­arðhaldi og ein­stak­ling­um sem eru ekki með kenni­tölu á Íslandi.

„Þannig að þetta er miklu breiðari hóp­ur og við náum til miklu fleiri með þessu verk­efni.“

„Við erum með mun fleiri tungu­mál núna í fang­els­um“

Að sögn Tinnu hef­ur mik­il aukn­ing átt sér stað á ein­stak­ling­um inn­an fang­els­anna sem eru ekki með kenni­tölu á Íslandi og á jafn­vel að vísa á brott af land­inu.

„Þannig að við höf­um líka breytt því, að þeir sem eiga alla­vega sex mánuði eft­ir í afplán­un á Íslandi, þeir geta sótt um í verk­efnið og fengið sjálf­boðaliða,“ seg­ir Tinna.

Verið sé einnig að taka inn mun fleiri sjálf­boðaliða sem tala ekki ís­lensku, „af því að við erum með mun fleiri tungu­mál núna í fang­els­um, eðli­lega. Þannig að við erum alltaf að end­ur­skoða og breyta og bæta“.

Far­sæl end­ur­koma í sam­fé­lagið

Eft­ir afplán­un fylgja nokkr­ar áskor­an­ir. Má þar helst nefna grunnstoðir en erfitt er að byggja upp líf sitt á ný ef grunnstoðir eins og hús­næði, at­vinna, fé­lags­leg tengsl og ör­yggi eru ekki til staðar.

Skort­ur á eft­ir­fylgd eft­ir að afplán­un lýk­ur er önn­ur áskor­un en ein­stak­ling­ar missa gjarn­an teng­ingu sína við kerfið sem ger­ir þeim enn erfiðara að aðlag­ast sam­fé­lag­inu á ný.

Vegna aukn­ing­ar á ein­stak­ling­um í fang­elsis­kerf­inu sem eru ekki með kenni­tölu er von­in að ná bet­ur til breiðari hóps, eins og ein­stak­linga með er­lend­an bak­grunn en einnig yngri ein­stak­linga sem eru að koma inn í fyrsta skipti.

Þannig er stefnt að því að tryggja að fleiri ein­stak­ling­ar fái tæki­færi til far­sæll­ar end­ur­komu í sam­fé­lagið og minnka lík­ur á end­ur­komu í fang­elsi.

mbl.is