Þótt Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir hafi nú gegnt embætti dómsmálaráðherra í tæpt hálft ár hefur hún ekki enn séð ástæðu til að sækja embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum heim. Það er einsdæmi.
Þetta fullyrðir Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri. Hann er gestur í nýjasta þætti Spursmála en viðtalið hefur vakið gríðarlegt umtal.
Þar furðar Úlfar sig á því að ráðherrann hafi ekki séð ástæðu til þess að kynna sér starfsemi embættisins með eigin augum. En þrátt fyrir það hefur hún boðað stórfelldar breytingar á starfsemi þess. Raunar svo miklar að hún taldi ástæðu til þess að víkja Úlfari frá störfum. Hefur hún sjálf talað um breytta „landamærapólitík.“
Var það gert á fundi í dómsmálaráðuneytinu þann 12. maí síðastliðinn þar sem Úlfari var tilkynnt að staða hans yrði auglýst og honum var um leið boðið að færa sig án auglýsingar í embætti lögreglustjórans á Austurlandi.
Segir Úlfar að fyrri dómsmálaráðherrar, sem hann hefur starfað fyrir, hafi allir séð ástæðu til þess að sækja embættið heim, skömmu eftir að þeir tóku við.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fer með löggæslu á Keflavíkurflugvelli sem er langstærsta landamæra stöð landsins. Þar var ríflega 700 manns brottvísað á síðasta ári.
Þá hefur mikið mætt á embættinu síðustu misseri vegna hinna gríðarlegu jarðhræringa sem orðið hafa nærri Grindavík og í bænum sjálfum.
Viðtalið við Úlfar má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Það hefst á mínútu 37:19.