Tæp 3200 tonn hafa verið veidd eftir tólf daga á strandveiðum. Það er um fimmtán prósent minna en eftir tólf daga á síðasta ári. Þetta segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „Að það sé tryggt að það fáist 48 dagar, það hefur aðeins breytt sóknarmynstrinu,“ segir Örn. „Það er svona aðeins meiri ró yfir sókninni hjá mönnum. Nú eru um 719 bátar sem eru byrjaðir á veiðum. Á sama tíma í fyrra voru þeir 695. En lægra hlutfall þeirra sem eru búnir að sækja um hafa farið af stað en í fyrra.“ Flestir bátarnir eru á svæði A en þar eru þó sex prósentum færri farnir af stað en á síðasta ári. Aflinn í hverri löndun hefur dregist saman og er um átta prósentum minni í ár en á sama tíma í fyrra.
Örn segir að það sé gott hljóð í strandveiðimönnum. „Maður er ánægður með það hversu vel hefur tekist til við að tryggja þessa fjörutíu og átta daga. Það breytir öllu fyrir strandveiðimenn.“ Sem fyrr segir hafa 3200 tonn verið veidd en samkvæmt reglugerð er miðað við 10.000 tonn. Ljóst er að það mun ekki nægja en Örn segist gera ráð fyrir að bætt verði við veiðiheimildirnar þegar þar að kemur.