Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir skiljanlegt að fólk mótmæli frumvarpinu um breytingar á lögum um veiðigjald þar sem það feli í sér umtalsverða hækkun veiðigjalda.
Hanna Katrín tók þátt í pallborði á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) varðandi áhrif veiðigjalda og annarra skatta á fyrirtæki.
„Fólk væri ekki að standa sig í að gæta hagsmuna sinna fyrirtækja ef ekki væri mótmælt. Við höfum hins vegar ekki alltaf verið sammála um forsendur þeirrar gagnrýni og þar stendur kannski hnífurinn í kúnni. Ég ber mikla virðingu fyrir því að allir aðilar, sama hvaðan þeir koma, hugsi um sína eigin hagsmuni. Mitt hlutverk er að gæta hagsmuna heildarinnar,” segir Hanna í samtali við mbl.is að loknum fundi.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, sagði á fundinum að ekki hefði verið haft nægt samráð við sveitarfélög við gerð frumvarpsins.
Hanna Katrín er hins vegar ósammála Írisi og telur að samráðið hafi verið nægilegt. „Bæði við gerð frumvarpsins og núna. Við erum í mjög þéttu samtali og samráði líkt og er að eiga sér stað hér í dag. Bæði eru ráðuneytin að ræða við þessa aðila sem og atvinnuveganefnd Alþingis sem fer yfir þessi gögn sem birt hafa verið. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum verið og erum í nægu samráði," segir hún.