Stjórnvöld eiga áfram að notast við milliverðlagningu til að mæla rétta verðið á fiskaflanum þegar hann fer frá útgerðinni yfir í vinnsluna. Engin ástæða er til að umbylta kerfinu sem hér hefur ríkt í langan tíma og búa til „sérstakt gullhúðað íslenskt kerfi”.
Þetta segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri líftæknifyrirtækisins Kerecis, sem tók þátt í pallborðsumræðum á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun þar sem fjallað var um áhrif veiðigjalda og annarra skatta á fyrirtæki. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra var á meðal þeirra sem tóku í umræðunum og stóð hún við hliðina á Guðmundi er þau tókust stuttlega á um veiðigjaldafrumvarpið.
Guðmundur, sem ræddi við blaðamann að loknum fundinum, segir ríkisstjórnina ætla með frumvarpi sínu að breyta því hvernig umræddur kostnaður er reiknaður. Þær áætlanir séu ekki vænlegar til árangurs, hvorki fyrir sjávarútveginn né sveitarfélögin, sérstaklega þau sem eru á landsbyggðinni. Hann segir að núna skuli miða við jaðarverð frá fiskmörkuðum þar sem 10-15% af aflanum séu seld og síðan eigi að miða við verð í Noregi. Hingað til hafi aftur á móti verið notast við reglur OECD um milliverðlagningu sem hafi verið hannaðar til að mæla hið raunverulega verð líkt og um ótengda aðila sé að ræða.
Á vefsíðu Skattsins kemur fram að hugtakið milliverðlagning vísi til þess hvernig tengdir lögaðilar verðleggi viðskipti sín á milli. „Reglum um milliverðlagningu er ætlað að tryggja að verðákvörðun í viðskiptum slíkra aðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila, þ.e. að verð sé í samræmi við svokallaða armslengdarreglu,” segir á vefsíðunni.
„Álverin eru að nota það [milliverðið] þegar það er verið að flytja ál frá Íslandi til dótturfyrirtækja sinna í útlöndum, ríkisskattstjóri fer yfir það, og Kerecis þegar við flytjum sáraroð okkar út, þá erum að selja til dótturfyrirtækis. Núna í núverandi reglum er verið að nota þessar OECD-reglur,” bendir Guðmundur á og segir hina svokölluðu leiðréttingu stjórnvalda á veiðigjöldum ekki vera leiðréttingu í raun og veru „vegna þess að við erum með rétt kerfi í dag sem byggir á OECD-reglum um þessa milliverðlagningu. Menn ætla að fara að breyta því í eitthvað sérstakt gullhúðað íslenskt kerfi þar sem menn eru að miða verðið við verð á fiskmarkaði í Noregi og jaðarverð á íslenskum fiskmarkaði”.
Kerecis-forstjórinn bætir við:
„Núna fer 33% [af hagnaði fiskveiða] til ríkisins og 66% til vinnslunnar. Það er auðveldast að takast á um þá prósentu og nota bara milliverðlagningarkerfið sem er búið að vera í mörg ár. Af hverju að vera að umbylta kerfinu? Af hverju ekki bara að takast á um þessa prósentu? Það er miklu hollara. Við erum með raunverulega gott kerfi í dag sem er samkvæmt OECD-reglum. Það ríkir sátt um það. Sjómenn sem passa nú vel upp á sinn hag, þeir eru sáttir við þetta, þeir telja þetta milliverðlagningaverð vera raunverulegt verð,” greinir Guðmundur frá.
Líkt og kemur fram í nýlegri umsögn Guðmundar um breytingarnar á veiðigjaldafrumvarpinu kveðst hann hafa verulegar áhyggjur af stöðu mála á Vestfjörðum ef breytingarnar ná fram að ganga.
„Á Vestfjörðum gengur bærilega núna í þessum rekstri, það er uppsveifla þar, fólki farið að fjölga aftur, fleiri börn í leikskólum og tónlistarskóla, gengur vel hjá Vestra í fótboltanum, en nú á einhvern veginn að kollvarpa þessu öllu og ég skil ekki af hverju ríkisstjórnin er að fara í þetta þegar það eru svo mörg önnur mál sem við þurfum að leysa í sameiningu,” heldur Guðmundur áfram.
Spurður hvort hann telji að hækka þurfi veiðigjöldin segist hann ekki vera hagsmunaaðili í sjávarútvegi og komi ekki nálægt neinum rekstri í sjávarútvegi. Hann viti aftur á móti sitthvað um milliverðlagsreglur.
„Við erum búin að vera í samtölum við ríkisskattstjóra bæði í mínum núverandi starfi og fyrrverandi störfum. Ríkisskattstjóri vill að við séum að selja á eðlilegu verði úr landi og ríkisskattstjóri í Bandaríkjunum vill að við séum að kaupa á eðlilegu verði, þannig að það sé ekki verið að svindla, þannig að þetta sé raunverulegt milliverðlag eins og þetta séu tveir óháðir aðilar og ég veit allt um það. Það eru tugir manna á Íslandi í ríkisskattstjóraembættinu, KMPG, Deliote, PricewaterhouseCoopers og öðrum fyrirtækjum sem eru að fást við milliverðlagningu. Þetta er það kerfi sem við erum að nota í dag, líka þegar við erum að verðleggja fiskinn frá veiðum yfir í vinnslu. Ég skil ekki af hverju við myndum breyta og búa til eitthvað séríslenskt kerfi þar. Ef ríkið vill meiri pening þá eigum við að takast á um þessa 1/3, 2/3 skiptingu,” svarar hann.