Flest bendir til þess að Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins verði ræðudrottning yfirstandandi þings.
Nefndadagar hafa staðið yfir á Alþingi í vikunni og kemur þing næst saman til fundar á mánudag.
Samkvæmt starfsáætlun Alþingis verður síðasti fundur 156. löggjafarþingsins föstudaginn 13. júní en vegna þess hve mörg mál eru enn óafgreidd benda allar líkur til þess að þingið standi lengur.
Nú þegar hillir undir þinglok er rétt að skoða hvaða þingmenn hafa talað oftast og lengst á yfirstandandi þingi.
Bryndís Haraldsdóttir hefur flutt 352 athugasemdir/andsvör og talað í samtals 902 mínútur, eða rétt rúmar 15 klukkustundir samtals.
Næst koma Bergþór Ólason Miðflokki 281/700, Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokki 219/652, Karl Gauti Hjaltason Miðflokki 201/612 og Jón Pétur Zimsen Sjálfstæðisflokki 204/610.
Stjórnarandstæðingar raða sér í efstu sætin eins og oftast er.
Sá ráðherra sem mest hefur talað er Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra. Hann hefur flutt 174 athugasemdir/andsvör og talað í 351 mínútu. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur flutt 72 ræður/andsvör og talað í 154 mínútur.
Samkvæmt yfirliti á vef Alþingis hafa verið fluttar 6.579 ræður og athugasemdir/andsvör síðan þingið var sett 4. febrúar síðastliðinn.
Þingræður eru 2.525 og hafa staðið yfir í 10.173 mín. (169:33 klst.). Athugasemdir eru 4.054 og hafa staðið yfir í 6.212 mín. (103:32 klst.).